Til stendur að borga þremur karlmönnum eina milljón króna hverjum fyrir að stunda nám í leikskólakennarafræðum og ljúka því. Um er að ræða verkefnið Karlar í yngri barna kennslu sem Samband íslenskra sveitarfélaga, Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri, Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla standa fyrir og fékkst styrkur úr Jafnréttissjóði Íslands. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í dag.
Karlar eru einungis um 2% menntaðra leikskólakennara á Íslandi og er því reynt nú að fjölga þeim með skipulögðum hætti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem reynt er að fjölga körlum í stétt leikskólakennara en aðgerðir fram að þessu hafa skilað litlu. Haraldur Freyr Gíslason formaður Félags leikskólakennara segir það í hag allra að draga úr kynjaskiptum vinnumarkaði:
Það er alveg rétt að árangurinn af þessum aðgerðum hefur verið lítill, en við stöndum frammi fyrir því að karlar eru rúmlega 1% leikskólakennara og við verðum að reyna sem flestar leiðir til að breyta því.