Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra harðlega á þingi í dag undir liðnum skipulag þingstarfa. Tilefnið voru orð Benedikts í morgun þar sem hann sagði nánast siðlaust af Alþingi á síðasta kjörtímabili að samþykkja samgönguáætlun án þess að tryggja fjármagn, það hafi skapað falskar væntingar.
Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður Vinstri grænna sagði á Alþingi eftir hádegi ummælin vera lítilsvirðingu í garð þingsins:
Ég held að ég hafi aldrei á þeim árum sem ég hef fylgst með Alþingi orðið vitni að slíkum dónaskap gagnvart þinginu. Að tala um vilja löggjafans, sem kemur skýrt fram í samþykktri samgönguáætlun, og að það sé siðlaust af löggjafanum. Þetta er þvílík lítilsvirðing og þvílíkt brengluð hugsun um þrískiptingu ríkisvaldsins. Hæstvirtur fjármálaráðherra ber að fara eftir samþykktum löggjafans,
sagði Kolbeinn. Svandís Svavarsdóttir þingmaður VG tók undir með honum og sagði ummælin grafalvarleg:
Síðan segir ráðherrann í sama viðtali að það hafi aftur verið gerð mistök þegar stjórnlaust þing samþykkti fjárlagafrumvarp. Ég tel þetta mjög alvarlegt orðfæri hjá hæstvirtum ráðherra, að hann tali um að Alþingi Íslendinga sé stjórnlaust þegar það er réttkjörið undir forystu forseta sem það hefur sjálft valið sér og þegar það er að afgreiða mál sem því ber að gera samkvæmt lögum.
Undir þetta tók Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata, Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar og Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar, sagði hún ummæli Benedikts alvarleg. Enginn stjórnarþingmaður tók til varna fyrir Benedikt undir dagskrárliðnum. Bjarkey Olsen þingmaður VG segist hafa orðið um þegar hún heyrði orð fjármálaráðherra:
Ég sat í fjárlaganefnd fyrir jólin og var í þessari vinnu ásamt hæstv. forseta, hæstv. félags- og jafnréttisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra. Samkvæmt orðum ráðherrans var þetta fólk siðlaust. Ég get engan veginn fallist á það að svo sé. Það er gríðarlegur ábyrgðarhluti fyrir ráðherrann að komast svo að orði og tala um að þingið hafi verið stjórnlaust. Í fjárlaganefnd sat hans fólk og eins fólk úr mínum flokki. Við vorum ekki stjórnlaus.