Sigurður Einarsson fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings segist hafa orðið fyrir misbeitingu valds og ofsóknum af hálfu opinberra aðila, einkum saksóknara og dómstóla. Nú þegar endurupptökunefnd sé búin að heimila endurupptöku á hluta Guðmundar- og Geirfinnsmála þá ætti saksóknari að sjá sóma sinn í að draga málsóknina í Marple-málinu til baka. Í pistli sem Sigurður skrifar og birtist á Vísi í morgun segir hann:
Ég er einn af þeim sem hef orðið fyrir misbeitingu valds og ofsóknum af hálfu opinberra aðila einkum saksóknara og dómstóla. Ekki er ég á nokkurn máta að gera tilraun til þess að setja mig í spor þeirra sem urðu fyrir misbeitingu valds af hálfu hins opinbera kerfis í Guðmundar- og Geirfinnsmálum fyrir tæplega 40 árum síðan. Samt sem áður er það þannig að enn á ný eru það opinberir aðilar saksóknarar og dómstólar sem fara ekki að lögum, beita ofbeldi, misbeita valdi og nýta fjölmiðla til að ofsækja fáeina einstaklinga á fölskum fyrirframgreindum forsendum sektar.
Sigurður hefur áður tengt saman Guðmundar- og Geirfinnsmál við mál tengd bankahruninu og hefur það verið gagnrýnt af m.a. Illuga Jökulssyni sem sagði ósmekklegt að tengja þessi mál saman, en Sigurður hefur á móti sagt að hann sé ekki að líkja sér við sakborninganna.
Segir Sigurður, sem var dæmdur í 4 ára fangelsi í Hæstarétti fyrir markaðsmisnotkun árið 2014, að framkvæmda- og dómsvaldið hafi ítrekað brotið á mannréttindum sínum sem vernduð séu í stjórnarskránni og í Mannréttindasáttmála Evrópu:
Þetta er staðreynd sem Hæstiréttur Íslands staðfesti þegar héraðsdómur í svokölluðu Marple-máli var ómerkur vegna vanhæfi meðdómarans Ásgeirs Brynjars Torfasonar, lektors við Háskóla Íslands. Frá upphafi málsmeðferðar lág fyrir að vanhæfi dómarinn hafði fyrir fram tjáð sig frjálslega um sekt fyrrum stjórnenda einkabankanna á hruninu sem hér átti sér stað í alþjóðlegu efnahagskreppunni árið 2008. Benda má á að kostnaður skattborgara vegna ofbeldisins muni verð mikill.
Nú þurfi sakborningar að ganga aftur í gengum skýrslutöku og réttarhöld:
Nú þegar Hæstiréttur er farinn að sjá ljósið úr því myrkri sem einkennt hefur dómsvaldið í hrunamálum ætti saksóknari að sjá sóma sinn í því að draga málsóknina til baka.