Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands vill að ákvæði um landsdóm verði fellt úr stjórnarskrá lýðveldisins, segir hann dóminn ekkert erindi eiga í stjórnarskrána. Þetta kemur fram í viðtali sem birt er í tímariti Lögréttu og greint er frá í Morgunblaðinu í dag. Segir forseti Íslands það hafa sýnt sig að niðurstaða landsdóms hafi frekar sundrað en sameinað þjóðina og það á versta tíma:
Ég sagði það áður en ég tók við embætti forseta Íslands og segi það enn að í endurreisnarstarfinu eftir hrun var feigðarflan að nýta forn og úrelt ákvæði um landsdóm,
sagði Guðni. Telur hann að niðurstaða landsdóms, þegar hann var kallaður saman í máli Geirs H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra, hafi ekki verið í samræmi við þá stefnu að þeir sem bæru pólitíska ábyrgð myndu axla hana og taka afleiðingunum:
„Látum þetta okkur að kenningu verða enda hygg ég að enginn vilji hafa ákvæði um landsdóm í stjórnarskránni. Finnið þann sem vill að málum verði hagað með sama hætti í framtíðinni. Ég efast um að ykkur takist það.“
Í viðtalinu sagði Guðni einnig að þjóðin telji ekki skynsamlegt að forseti Íslands sé einn með það vald að geta synjað lögum, það sé vilji þjóðarinnar að ákvæði sé í stjórnarskrá um að ákveðinn fjöldi kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu með undirskriftum.