Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri hjá Kviku banka og fyrrverandi varaformaður framkvæmdahóps stjórnvalda um losun hafta hér á landi telur að stefnuleysi einkenni stjórmálin á Íslandi í dag. Sigurður var mikilvægur efnahagsráðgjafi síðustu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hann var gestur ásamt Kristrúnu Heimisdóttur í nýjasta þætti Eyjunnar á sjónvarpsstöðinni ÍNN.
Það sem mér finnst vera svolítið áberandi, er stefnuleysi og það er endilega ekkert bundið við ríkisstjórn. Mér finnst þetta bara vera svona heilt yfir. Það er mikið af nýju fólki sem er auðvitað bara gott, af hinu góða, en manni finnst svona áberandi að það vantar sýn í stórum málum, og ég hef til dæmis komið inn á það í greinum sem ég hef verið að skrifa,
svaraði Sigurður þegar Björn Ingi Hrafnsson þáttarstjórnandi innti hann eftir því hvernig honum litist á stjórnmálin núna. Sigurður nefndi peningastefnumálin sem dæmi:
Þar eru allir sammála um að það þarf að endurskoða stefnuna, Seðlabankinn hefur talað um það í nokkur ár, og skrifaði ítarlega skýrslu um það fyrir sirka fimm árum síðan. Ríkisstjórnin og stjórnmálamennirnir hafa talað um það, svona heilt yfir línuna í rauninni, en það er engin sýn. Og innan ríkisstjórnarinnar eru þrjár skoðanir. Þegar svo er þá náttúrlega blasir við að það mun ekki nást árangur.
Þarna sagðist Sigurður eiga við þær staðreyndir að Viðreisn vildi ganga í Evrópusambandið (ESB) og taka upp myntráð, Björt framtíð vilji ganga í ESB en Sjálfstæðisflokkurinn sé andvígur ESB aðild og vilji Evrópusambandið og byggja á krónunni.
Sigurður Hannesson ræddi einnig losun gjaldeyrishafta og vísaði þar til verka fyrri ríkisstjórnar.
Markmiðið var algerlega skýrt með allri þessari vinnu. Það var að losa höft á almenning og atvinnulífið…Það var kynnt stefna og plan sumarið 2015. Það plan hefur gengið eftir og skapað mikinn trúverðugleika. Við sjáum það til að mynda á lánshæfismati landsins sem hefur hækkað mikið…Við sjáum það í skrifum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og fleiri aðila. Við sjáum það líka í stöðunni hérna sem er auðvitað gerbreytt frá því sem var á mjög skömmum tíma.
Sigurður útskýrði að tvennt hefði þurft til að ná þessum árangri. Annars vegar varð að leysa vanda slitabúa bankanna. Það hafi endanlega verið gert í fyrra þegar þau kláruðu sína nauðarsamninga. Hitt var að skipuleggja útflæði fjármuna úr landinu.
Það má ekki gerast allt í einu því þetta eru það miklir fjármunir. Það var gert með útboði. Þeir sem vildu fara, þeim gafst kostur á að fara. Þeir sem vildu vera til lengri tíma, þeim gafst kostur á því. Svo kemur í ljós að hljóð og mynd fara ekki saman hjá þessum aflandskrónueigendum. Þeir sem gáfu það til kynna að þeir vildu vera lengi með því að bjóða léleg verð í útboðinu, þeir allt í einu koma núna og auglýsa og kvarta undan illri meðferð og vilja fara út. Ég segi, þessi vandi var leystur í fyrra. Það er auðvitað mjög skrítið, þegar staðan er svona góð eins og raun ber vitni, að það skuli ekki vera haldið áfram með planið meðan útflæðið er lítið, vegna þess meðal annars að það hefur byggst upp traust. Það á að leyfa almenningi og atvinnulífinu að flytja fjármuni til útlanda í meira mæli en gert er.
Björn Ingi sagði þá við Sigurð að hann væri í raun að segja að ef þessu er ekki létt af við þessar aðstæður, hvenær þá? Sigurður jánkaði því:
Akkúrat. Það er auðvitað frábær staða til að gera það í dag. Og það á að gera það og það á að forgangsraða eins og planið gerir ráð fyrir, en ekki í þágu kröfuhafanna. Það er búið að hleypa þeim út. Þeir sem vildu fara út þeir eru farnir. Vandinn var leystur í fyrra og þess vegna skil ég ekki ef það reynist rétt, að stjórnvöld ætli í alvörunni að hverfa frá þessari stefnu sem að skapaði allan þennan trúverðugleika.
Sigurður telur að senda verði þau skilaboð að íslensk stjórnvöld séu í bílstjórasætinu þar sem enginn muni fá sérmeðferð.
Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Sigurð og Kristrúnu. Umræðan um stöðu stjórnmálanna og afnám hafta hefst á 11. mínútu:
https://vimeo.com/206461279