Sigríður Andersen dómsmálaráðherra segir fráleitt að ríkið reki fjölmiðil og sé í samkeppnisrekstri. Þetta kemur fram í viðtali við Sigríði í Fréttablaðinu í dag. Segir hún að hugsanlegt hafi á einhverjum tíma verið rök fyrir fjölmiðli í ríkiseigu en sá tími sé löngu liðinn:
„Kannski var allt í lagi að halda þessu úti þegar það var heilmikið verk að kaupa tæki til útsendingar. Sú rök eru ekki lengur til staðar, það getur hver sem er gert þetta og þar fyrir utan er fullt af fjölmiðlum starfrækt í landinu. Það er ekki eins og þetta ágæta fólk sem vinnur á RÚV myndi hverfa þótt ríkið myndi hætta að reka miðilinn,“
sagði Sigríður. Það sé hins vegar ekki raunhæft að leggja niður RÚV í dag og ætlar hún ekki að berjast fyrir því:
Það gæti vel komið til greina að takmarka reksturinn við eins og eina útvarpsstöð. Það er möguleiki að taka stofnunina af auglýsingamarkaði en þá kemur þessi krafa um meira fjármagn frá ríkinu. Mér finnst þessi umræða raunar vera sérstök, því það er ekki hægt að vera endalaust í bútasaumi á ónýtu kerfi. Þetta er samkeppnisrekstur og ríkið á ekki heima í slíku umhverfi.
„Skoðanir reka mann áfram“
Sigríður segir að það sé áfram hægt að styrkja innlenda dagskrárgerð, en það sé hægt með öðrum leiðum:
Mér finnst einfaldlega fráleitt að ríkið reki fjölmiðil, með margar rásir og mikil útgjöld. Ég geri enga kröfu til þess að fréttastofa ríkisins haldi hlutleysi eða að efnis tökin séu eitthvað sérstök. Á fréttastofu ríkisútvarpsins er bara fólk að vinna, sem hefur sínar skoðanir eins og annað fólk. Skoðanir reka mann áfram. Vonandi starfar fólk þar faglega, en kröfu um hlutleysi held ég að sé mjög erfitt að halda til streitu.