Trúverðugleiki íslenskra stjórnvalda beið hnekki vegna þess að boðað var til kosninga í fljótræði. Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra í kostaðri Fésbókarfærslu. Greint var frá því í morgun að fulltrúar íslenskra stjórnvalda hefðu fundað með vogunarsjóðum í New York til að kanna grundvöll samkomulags sem myndi gera vogunarsjóðunum kleift að flytja eignir sínar úr landi í skiptum fyrir gjaldeyri á hagstæðu gengi.
Gjaldeyrisútboðið sem var síðasti stóri liðurinn í planinu um losun hafta dróst úr hófi. Þegar að því kom var búið að boða til kosninga í furðulegu fljótræði og trúverðugleiki þess að íslensk stjórnvöld væru staðföst og myndu halda sínu striki að engu orðinn,
segir Sigmundur Davíð:
Fyrir vikið hættu vogunarsjóðirnir sem keypt höfðu krónur flestir við að taka þátt í útboðinu. Nú vildu þeir „fullt verð“ frá Íslendingum fyrir krónurnar sem þeir höfðu keypt á afslætti. Þeir gerðu ekki einu sinni tilboð heldur ákváðu frekar að setja aukinn kraft í áróður innanlands sem utan og treysta á að fá „skilningsríkari“ ríkisstjórn.
Vitnar Sigmundur Davíð í grein Sigurðar Hannessonar framkvæmdastjóra hjá Kviku banka en Sigurður hélt að miklu leyti utan um vinnu framkvæmdahóps stjórnvalda um losun hafta á síðasta kjörtímabili. Benti Sigurður á að nú þegar væri hægt að losa öll höft af almenningi ef sjóðirnir sem ákváðu að sitja eftir í útboðinu yrðu látnir bíða eins og til stóð, en þess í stað virðist ætlunin vera sú að byrja á að semja við vogunarsjóðina. Sigmundur Davíð hefur lengi haldið því fram að sitt ráðuneyti hafi verið horn í síðu erlendra vogunarsjóða, sagði hann meðal annars í október síðastliðnum að starfsmenn vogunarsjóða hefðu opnað kampavínsflösku þegar hann sagði af sér sem forsætisráðherra síðastliðið vor.