„Hneykslið í málinu er það að borgaryfirvöld sögðu engum frá, þannig að það var sjósundfólk, hundaeigendur og aðrir útivistarunnendur, sem uppgötvuðu ógeðið og gerðu fjölmiðlum viðvart. Enginn vafi leikur á að með þögninni þverbrutu borgaryfirvöld lög um upplýsingarétt um umhverfismál, lög sem voru sérstaklega sett til þess að koma í veg fyrir nákvæmlega þetta framferði, að yfirvöld héldu umhverfisslysum leyndum fyrir borgurunum.“
Þetta segir leiðarahöfundur Viðskiptablaðsins í dag, í leiðaranum eru borgaryfirvöld harðlega gagnrýnd vegna viðbragða sinna við skólpmálinu svokallaða þar sem ógrynni af óhreinsuðu skólpi flæddi út í fjöruna við Vesturbæ Reykjavíkur í marga daga. Segir leiðarahöfundur að það veki furðu að Dagur B. Eggertsson hafi ekki rætt við fjölmiðla sem og viðbrögð Hólmfríðar Sigurðardóttur, umhverfisstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, um að málið væri „bagalegt“ og S. Björns Blöndal forseta borgarstjórnar um að heppilegra hefði verið að láta vita af skólpinu. Þar að auki hafi Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, sagt að ekki hafi verið talin ástæða til þess að láta neina vita af biluninni. Telur leiðarahöfundur að ekkert bendi því til þess að það hafi átt að upplýsa borgarbúa:
Ekkert bendir til þess að innan borgarkerfisins hafi nokkur ætlað að upplýsa borgarbúa um að það væri búið að útbía ströndina í saur.
Því hljóti framtíð Heilbrigðiseftirlitsins og stjórnenda þess að koma til skoðunar því eftirlitið sé ekki starfi sínu vaxið:
Ekki var hitt skárra þegar Stefán Eiríksson borgarritari pakkaði í vörn fyrir samstarfsmenn sína í Ráðhúsinu og útskýrði að þetta kæmi þeim eiginlega ekki við, það væru sko Veitur ohf., sem yrðu að svara því hvort lög um upplýsingarétt um umhverfismál hefðu verið brotin, þegar ákveðið var að upplýsa almenning ekki um bilunina, líkt og einhver þjónustufyrirtæki í eigu borgarinnar séu stjórnvöld.
Á endanum liggi ábyrgðin hjá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra:
„Öll þessi viðbrögð eru til marks um ömurlega pólitík og ömurlega stjórnsýslu. Borgarstjóri er framkvæmdastjóri borgarinnar og á endanum hvílir ábyrgðin hjá honum, ekki einhverjum undirsátum sem hann vill fórna. Dagur reynir að verja sig með því að hann hafi ekkert vitað, en það er vond vörn. Hann átti að vita og til þess hefur hann komið trúnaðarmönnum sínum fyrir í stjórn borgarfyrirtækja og til þess er embættismannakerfið, að upplýsa hann. Bregðist það er ábyrgðin eftir sem áður hjá honum.“
Þetta sé þó aðeins hluti vandans, vandi sem megi leysa í næstu kosningum, vandi borgarinnar sé öllu meiri og snúi að mölbrotnu stjórnkerfi:
Hér bendir hver á annan, menn skáka í skjóli ohf-unar og kennitöluskipta í stjórnsýslunni, enginn vill veita upplýsingar, í mesta lagi umlað um að skoða þurfi verkferla, en alls ekki neinn vill taka minnstu ábyrgð. Þetta er óboðlegt ástand hvar sem er, en í höfuðborg landsins er það hreint hneyksli. Við eigum betra skilið.