Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur og ráðherra kemur Degi B. Eggertssyni borgarstjóra til varnar og segir það vera R-listanum að þakka að nú fljóti ekki óþverri í fjöruborðinu. Líkt og greint var frá í síðustu viku bilaði skólphreinsistöðin við Faxaskjól með þeim afleiðingum að gríðarlegt magn af óhreinsuðu skólpi lak út í fjöruna við Vesturbæ Reykjavíkur.
Sjá frétt: Óhreinsað skólp flæðir út í fjöruna við Vesturbæ Reykjavíkur
Þingmenn, borgarfulltrúar og fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins hafa gagnrýnt borgaryfirvöld og Dag B. Eggertsson borgarstjóra sérstaklega vegna málsins. Gagnrýna þeir að biluninni hafi verið haldið leyndu og að borgarstjóri hafi ekki tekið málið föstum höndum þegar það kom upp og rætt það í fjölmiðlum.
Sjá frétt: Þingmaður Sjálfstæðisflokksins: Hvar er Dagur nú? – Björn: Framkoman jafngildir afsögn
Í færslu á Fésbók segir Ingibjörg Sólrún að í tilefni umræðunnar um bilunina þá sé tilefni til að rifja upp umhverfisátak R-listans á árunum 1994 til 2002 sem miðaði að því að hreinsa strandlengjuna:
Átakið miðaði að því að endurheimta strandlengjuna sem útivistarsvæði borgarbúa en víðsvegar við ströndina lágu opin skólprör og saur, klósettpappír og annar óþverri flaut í fjöruborðinu. Þetta var gríðarlega kostnaðarsöm framkvæmd því leggja þurfti ný holræsi víðs vegar í borginni og byggja bæði hreinsi- og dælustöðvar á nokkrum stöðum. Það var engin leið að fjármagna þetta með hefðbundnum tekjustofum borgarinnar og því var ákveðið við samþykkt fyrstu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurlistans að leggja á sérstakt holræsagjald til að standa undir þessum framkvæmdum,
segir Ingibjörg Sólrún. Hún segir að Sjálfstæðismenn í borginni hafa farið hamförum:
„Sjálfstæðismenn í borginni fóru hamförum, kölluðu gjaldið ýmist ,,skítaskatt“ eða ,,klósettskatt“ og gott ef ég var ekki einhvers staðar kölluð ,,skólp-Solla“. Þetta var mikil eldskírn fyrir mig sem var nýorðin borgarstjóri en ég var sannfærð um mikilvægi þessarar framkvæmdar og nauðsyn þess að fjármagna hana með ábyrgum hætti og taldi ekki eftir mér að taka um þetta mikinn pólitískan slag.“
Ylströndin vitnisburður um átakið
Um aldamótin var svo ylströndin í Nauthólsvík opnuð, sem Ingibjörg Sólrún segir að sé vitnisburður um þetta átak:
Í desember 1997, þegar hillti undir lok fyrsta stóra áfanga þessara framkvæmda með opnun dælustöðvarinnar við Mýrargötu, samþykkti borgarstjórn að hefja framkvæmdir við útivistar- og baðaðstöðu í Nauthólsvík og endurheimta þannig fyrrum sjóbaðsstað Reykvíkinga. Sú aðstaða var opnuð 17. júní 2000 og var sýnilegur vitnisburður um þá miklu framkvæmd og fjármuni sem grafnir höfðu verið í jörð í Reykjavík til að hreinsa strandlengjuna. Ég held að þessi framkvæmd Reykvíkinga sé eitt mesta umhverfisátak sem ráðist hefur við í hér á landi.