Jóna Sólveig Elínardóttir skrifar:
Oft þegar ég hef lent á Keflavíkurflugvelli og heyri í kallkerfinu
Kæru farþegar, velkomin heim!
þá hugsa ég með mér að stórum hluta ferðamannanna um borð í vélinni hljóti að líða eins og þau séu lent á tunglinu. Mjúkar mosabreiðurnar sem umlykja hrjúft hraunið og hrjóstrugt landsvæðið í kringum flugstöðina sem virðist svo framandi í þessu umhverfi, dálítið eins og geimstöð.
Frönsk systir mín sagði mér á dögunum að hún hefði aldrei séð jafn fjölbreytt landslag á eins stuttum tíma eins og þegar hún keyrði vesturströndina um Snæfellsnesið og norður til Hólmavíkur og síðan suðurströndina austur að Hjörleifshöfða:
Ísland, íslensk náttúra, allur þessi fjölbreytileiki, þetta er engu líkt.
Hún sagði mér líka að hún upplifði höfuðborgina okkar eins og vinalegan smábæ með menningarlíf á við stórborg. Reykjavík sem nú hefur hlotið viðurkenningu sem ein besta ráðstefnuborg í heimi, hvorki meira né minna!
Þessa jákvæðu upplifun af Íslandi staðfesta 95% gesta okkar sem segjast annað hvort mjög ánægðir eða ánægðir með heimsóknina, landið, móttökurnar og þjónustuna. Þá segjast 80% vilja sækja okkur aftur heim.
Við skulum taka jafnvel á móti ferðamönnunum okkar þegar þau koma aftur, með hágæða afþreyingu, góðri gistiþjónustu og vel hirtum ferðamannastöðum sem standa undir væntingum kaupenda.
Ólíkt einhverjum óttast ég ekki að missa ferðamenn til t.d. Kanada eða Noregs vegna þess að þeir geti boðið upp á sambærilega upplifun. Það er bara ekki þannig. Þeir sem ferðast til Kanada og Noregs vita alveg að þeir eru ekki á leið til tunglsins.