„Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina vilja að borgarráð Reykjavíkurborgar sammælist um að skora á fjármálaráðherra að setja lög sem skattleggja ofurbónusa í ofurhlutfalli. Flugvallarvinir lögðu fram tillögu þess efnis í borgarráði fyrir tæpu ári. Tillögunni var vísað til meðferðar hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Flugvallarvinir eru ósáttir við að hún virðist hafa strandað í kerfinu.“
Þetta segir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir oddviti Framsóknar og Flugvallarvina í færslu á Fésbók, deilir hún frétt RÚV þar sem rætt er við hana um tillöguna í tilefni af fréttum um 370 milljón króna bónusgreiðslum stjórnenda gamla Landsbankans.
Sjá frétt: Fá rúmlega 370 milljónir í bónusgreiðslur
Segir Sveinbjörg Birna að það að tillagan hafi strandað í kerfinu sýni að meirihluti Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar í Reykjavík hafi ekki viljað taka á málinu:
Það að meirihlutinn skyldi ekki á þessum tima vilja gera áskorun til réttra yfirvalda sýnir að þeir hafi ekki viljað taka á málinu,
segir Sveinbjörg. Telur hún að bónusgreiðslur stjórnenda fjármálafyrirtækja komi sveitarfélögum við þar sem ekki liggi fyrir hvernig greiðslurnar séu skattlagðar og því sé skorað á Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra að setja lög sem skattleggi ofurbónusa í ofurhlutfalli:
Við vitum ekkert hvort þetta er skattlagt sem laun eða fer inn í félög sem þessir aðilar eiga. Ef svo er þá er ekki víst að borgin fái neinn hluta af þessum tekjum til sín. Við fáum bara útsvar og það er ekkert sem sýnir að við fáum útsvar af þessum tekjum.