750 lítrar af óhreinsuðu skólpi flæða nú á hverri sekúndu út í hafið við Faxaskjól í Vesturbæ Reykjavíkur. Skólpdælustöðin er biluð og hefur skólpið nú flætt í tíu sólarhringa, ekki er vitað hvenær gert verður við stöðina.
RÚV greinir frá þessu. Um er að ræða bilun í neyðarlúgu sem veldur því að skólpið flæðir nú út í fjöruna. Hólmfríður Sigurðardóttir umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur segir betra að skólpið fari út í fjöru en inn á heimili fólks:
Af tvennu illu þá töldum við það skárri kost að hafa lúguna opna þannig að það væri ekki möguleiki á því að skólpið myndi fara uppí kerfið og flæða inn til fólks. Því það væri möguleiki,
sagði Hólmfríður í samtali við RÚV. Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur segir að rétt hefði verið að láta borgarbúa vita:
„…þetta er það mikið magn að almenningur verður var við þetta og það er náttúrulega mengun af þessu,“
sagði Kjartan í samtali við RÚV. Segir hann að fólk hafi orðið vart við skólp í fjörunni, aðspurður um hvort þetta hefði borið á góma á stjórnarfundi OR sagði Kjartan:
Já, það var rætt um þetta á síðasta stjórnarfundi og þá fengum við þær fregnir að það ætti að ljúka viðgerð í júní.