fbpx
Mánudagur 11.ágúst 2025
Eyjan

Haraldur Benediktsson: Léttúð, áhugaleysi, úrræðaleysi og seinagangur landbúnaðarráðherra – Vill lækkun veiðigjalda

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 31. ágúst 2017 00:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Haraldur Benediktsson alþingismaður og bóndi vandar landbúnaðarráðherra ekki kveðjurnar, krefst tafarlausra aðgerða í málum sauðfjárbænda og að veiðigjöld í sjávarútvegi verði lækkuð.

Haraldur Benediktsson bóndi á Reyni undir Akrafjalli, fyrrum formaður Bændasamtaka Íslands en núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis, er í ítarlegu viðtali í landshlutablaðinu Vesturlandi sem kemur út í dag, fimmtudag.

Magnús Þór Hafsteinsson ritstjóri Vesturlands ræddi við Harald í byrjun vikunnar. Í viðtalinu fer Haraldur þungum orðum um frammistöðu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur landbúnaðarráðherra og þingmanns Viðreisnar gagnvart þeim vanda sem nú steðjar að sauðfjárrækt í landinu.

Haraldur krefst þess einnig að veiðigjöld í sjávarútvegi verði endurskoðuð með tilliti til lækkunnar í haust þar sem staða sjávarútvegsins hafi versnað mjög á síðustu mánuðum.

Hér fer úrdráttur úr viðtalinu í Vestulandi. Þar segir Haraldur þetta um vandann í málefnum sauðfjárbænda:

Í Svarthamarsrétt á Hvalfjarðarströnd.

Ástandið núna er mesta vá sem við höfum séð í sauðfjárrækt í langan tíma. Það sem hryggir mig mest er hvað menn hafa tekið þessu af mikilli léttúð, og sérstaklega landbúnaðarráðherra. Það er ekkert einfalt að takast á við þetta. En, að mæta þessu af svona léttúð sem mér hefur fundist ráðherrann gera, ber vott um fullkomið úrræðaleysi og áhugaleysi á að takast á við starfið sitt. Við vitum að bændur fóru til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í mars/apríl og lögðu fyrir hana hvert stefndi. Þeir báðu hana að beita sér fyrir því að sláturhúsin mættu vinna saman að því að flytja kjöt út á erlenda markaði. Þetta hefði orðið til þess að létta á birgðum. Þeir voru ekkert að biðja um neina eða verulega peninga þarna í upphafi. Það er heldur alls engin lausn í þessum málum að opna hirslur ríkisins og byrja að ausa út fé. Ráðherrann brást við þessu með því að segja við bændur að þeir skyldu spyrja Samkeppniseftirlitið. Það biður svo um upplýsingar sem bændur mega ekki safna. Svona sirkus er öll meðhöndlun á þessu máli búin að vera í allt sumar.

 

Tímanum sóað og óraunhæfar tillögur

Þessi málsmeðhöndlun af hálfu landbúnaðaráðherra hafi leitt til þess að dýrmætur tími sé farinn til spillis.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Mynd: DV/Sigtryggur Ari

Nú í lok ágúst höfum við enn engar greiningar í höndunum um það hve miklar birgðir af kjöti eru til í landinu, hver samsetning þeirra er og hver á þær. Stjórnvöld geta hins vegar kallað eftir þessum upplýsingum frá sláturhúsum og afurðastöðvum. Þetta voru upplýsingar sem ráðherrann átti að sjálfsögðu að afla sér. Ef þú veist ekkert um samsetningu birgðanna eða hverjar ástæður eru fyrir verðfalli þá ertu í mjög erfiðri stöðu því þig skortir grunninn til að taka ákvarðanir.

Eitt af því sem landbúnaðarráðherra hefur rætt er að farið verði í að fækka sauðfé í landinu. Bóndinn á Reyni segir þetta óraunhæft.

Ég hræðist þetta fækkunartal. Það er alltof seint að fara að tala um eitthvað fækkunarátak núna. Fólk er núna búið að heyja og var áður búið að kaupa áburð. Þetta var hægt í vor. Þá hefðu menn farið í það, breytt sínum forsendum og áætlunum og sparað við sig í aðföngum. Nú er hins vegar komið að því að fara að reka heim af afréttum. Tíminn fyrir fækkunaraðgerðir var allur í vor. Þá var hægt fyrir tiltölulega litla fjármuni að gera slíkar ráðstafanir. Við verðum nú að koma að þessu með fjármuni til að bregaðst við þessum forsendubrestum sem sauðfjárræktunin hefur orðið fyrir, en langmest af þeim hugmyndum sem nú eru reifaðar eru alltof ómarkvissar, alltof seint fram komnar og það ekki verið að tala um alvöru málsins. Lausnin liggur í svörum við spurningum um samsetningu birgða og skýringum á því hvers vegna þetta verðfall sé framundan á afurðum.

 

Telur lausnina þríþætta

En hver er þá lausnin í vanda sauðfjárræktarinnar að mati Haraldar Benediktssonar?

Ég myndi vilja sjá núna að ráðherra lýsti því yfir að hún ætlaði að biðja Ríkisendurskoðun um að greina birgðir, magn þeirra og samsetningu.  Greina efnahagsreikninga sláturhúsa og láta leggja mat á mögulegar hagræðingaraðgerðir.  Þá verður ráðherra að segja í fyrsta lagi: „Ég mun standa í því að hjálpa ykkur að leysa þennan birgðavanda þannig að hann verði orðinn ásættanlegur í upphafi næstu sláturvertíðar 2018.“ Þá verður ráðherra líka að segja: „Ef ég á að lýsa þessu yfir, að ég muni vilja vinna að lausn birgðamála eða koma birgðum í viðunandi horf fyrir 2018, þá verða sláturleyfishafarnir núna að hafa þor til að endurskoða þessa verðlista sem nú er búið að gefa út. Draga lækkanir að stóru hluta til baka.“

Haraldur segir að hann telji þó ekki að lækkanirnar geti að öllu leyti gengið til baka, en þó verulega.

Það yrði til að lina þetta tekjufall sem verður.

Hann telur að samhliða þessari greiningu á samsetningu birgða verði líka að móta einhvers konar greiningar á því hvernig hægt er að hafa eðlilegri verkaskiptingu á milli sláturhúsa, og endurskoða sláturhúsareksturinn í heild sinni. Það sé óhjákvæmilegt.

Haraldur fer yfir málin heima í stofu.

Í þriðja lagi, þá fyndist mér vel koma til greina sem bráðaaðgerð í haust, sem er eitt af því sem ráðherrann hefur greinilega ekki skoðað, en það er að rétta efnahag sláturhúsa. Ég nefni sláturhús eins og á Blönduósi, Vopnafirði og Kópaskeri. Þetta eru félög sem eru með veikan fjárhag. Hvort sem það væri Framleiðnisjóður eða Byggðastofnun, þá verður með einhverju móti að styrkja efnahag þessara fyrirtækja svo þau séu að markaðssetja haustsslátrunina í styrkeika en ekki veikleika.

Haraldur bendir líka á að til séu úrræði til sveiflujöfnunar sem festa megi í lög að fordæmi slíkra lagasetninga hjá öðrum ríkjum.

Við höfum því miður ekki haft þau lengi í íslenskum búvörulögum. Þar er atvinnugreinin sjálf látin bera ábyrgð á offramleiðslu þegar hún er og við hlífum neytendum við verðhækkunum þegar skortur er á afurðum. Það eru fullkomnir fordómar að vilja ekki setjast niður og þróa svona kerfi.

 

Mikið í húfi

Formaður fjárlaganefndar Alþingis segir fyrirsjáanlegt að ríkið verði að leggja fram fé til að hjálpa sauðfjárræktinni yfir hjallann.

Það er óhjákvæmilegt í þessari stöðu, eins og mörg fordæmi eru um þar sem verða forsendubrestir í atvinnugreinum, að við höfum gripið til aðgerða. Ef þetta heldur svona áfram í sauðfjárræktinni þá mun það draga aðrar búgreinar með sér niður og ekki síst kjötmarkaðinn. Þar erum við með nautakjöt, svínakjöt og svo framvegis. Menn geta ekkert tekið vanda sauðfjárræktarinnar nú af einhverri léttúð. Hvert er hlutverk sauðfjárræktarinnar? Hún er lífæðin í þessum dreifðu byggðum. Engin ein atvinnugrein dreifir sér jafn mikið um byggðir landsins eins og sauðfjárræktin. Ef ekki verður gripið til alvöru aðgerða á næstu mánuðum þá hrynur þessi atvinnuvegur með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Haraldur Benediktsson tekur fram að þó hann telji óraunhæft að fara í einhvern skyndiniðurskurð á sauðfé nú þá efist hann ekkert um að það geti verið góður kostur að gera tilboð um fækkun sauðfjár. Þetta þurfi þó að gerast yfir lengri tíma.

Rekstrarsamsetning margra búa er nú að breytast. Menn eru að hasla sér völl í ferðaþjónustu og annarri starfsemi, en menn gera það ekki í upphafi sláturtíðar. Slíkt er miklu lengra ferli.

Aðspurður segist Haraldur ekki hafa neinar væntingar um að það muni liggja fyrir nein lausn á vanda sauðfjárbænda þegar þing kemur saman um miðjan september.

Það er búið að leggja fram tillögupakka fyrir bændur. Þeir hafa aflýst fundi um þessar tillögur vegna þess að þær eru allar óljósar og óútfærðar. Það liggur fyrir vilji ríkisstjórnar að bregðast við vandanum. Menn hafa rætt um fjárhæðir í því sambandi. Það er allt í hendi en það vantar algerlega þroskaða nálgun á málið.

 

Kallar eftir alvöru aðgerðum

En nú eru Björt framtíð og Viðreisn hvorutveggja flokkar sem eru þekktir fyrir harða gagnrýni á núverandi tilhögun landbúnaðarmála. Björt framtíð lagðist til dæmis gegn nýjum búvörusamningum. Telur Haraldur Benediktsson að þessi flokkar sem nú eru báðir í ríkisstjórn muni fallast á björgunaraðgerðir til hjálpar sauðfjárræktinni?

Haraldur Benediktsson og tíkin Týra við bústörfin heima á Reyni.

Orð í eins manns meirihluta eru dýr og ég hef ekki verið yfirlýsingaglaður til þessa og setið á mér. En ef menn taka ekki alvarlega ógn við byggðir sem blasa við, hvort heldur er til sjávar eða sveita, út frá einhverjum kreddum um hærri veiðigjöld og úrelt landbúnaðarkerfi þá er ekkert hægt fyrir ábyrga stjórnmálamenn að sitja undir því mikið lengur. Minn bakgrunnur og mitt bakland er bara annarrar gerðar en þessa fólks. Ég er þó ekki að segja að ég eigi erfitt með að vinna með þeim og ég er langt frá því að segja að það séu einhverjir erfiðleikar í meirihlutanum. Síður en svo. Samstarfið í meirihlutanum þroskaðist gríðarlega í vor og það er að mörgu leyti ágætur andi.

Hann segir ekki meir en bætir svo við eftir smá þögn:

Viðreisn og Bjartri framtíð eru falin ábyrgð á að stýra landinu. Þá verður að gera meira en það sem þægilegt er og kannski fara í aðgerðir sem þessir flokkar byggðu ekki sína pólitík á.  Þannig eru stjórnmál – málamiðlun og raunsæi þegar til kastanna kemur.

 

Telur að veiðigjöld verði að lækka

Veiðigjöldin í sjávarútvegi eru hjartans mál í stefnu Viðreisnar og Björt framtíð hefur talað fyrir uppboði aflaheimilda. Veiðigjöldin voru átakamál á síðasta þingi. Haraldur segir að endurskoða þurfi veiðigjöld strax í haust.

Það var þannig gengið frá málum í vor, með sérstakri yfirlýsingu Páls Magnússonar formanns atvinnuveganefndar þingsins í samstarfi við sjávarútvegsráðherra, að það ætti að fara fram ákveðin greiningavinna í sumar vegna veiðigjalda. Afsláttur á þeim vegna skulda við kaup á aflaheimildum er að falla niður. Við erum svo að sjá núna að afleiðingar sjómannaverkfallsins eru miklu alvarlegri heldur en haldið hefur verið á lofti á sama tíma og gengi krónunnar helst hátt og óhagstætt fyrir sjávarútveginn. Við verðum með einhverjum hætti að endurskoða umhverfi veiðigjalda í ljósi þessa.

Ertu með þessu að segja að það gangi illa í sjávarútveginum?

Rekstrarumhverfi bolfiskútgerða hefur breyst mjög til hins verra. Að óbreyttu ástandi varðandi veiðigjöldin og stöðu útgerðarinnar þá horfir mjög illa. Lítum til dæmis á afleiðingar sjómannaverkfallsins. Áhrif þess til lækkunar fiskverðs eru mjög alvarleg. Þetta langa verkfall varð til þess að við misstum bestu hluta markaðarins sem greiddu hæstu verðin.  Ástæðan var sú að við gátum ekki svarað eftirspurn og misstum því hillupláss og viðskiptasambönd. Aðrir tóku við. Með þessu er ég ekki að ásaka sjómenn og útgerðir fyrir þetta langa verkfall, bara að benda á að afleiðingar verkfallsins eru að koma fram af fullum þunga núna. Síðan bætast þarna við vandamál vegna gengismála. Þegar þetta leggst saman þá eru einfaldlega erfiðleikar í þessum hluta sjávarútvegsins og útgerðarinnar.

Með því að smella hér má sjá og lesa Vesturland í heild:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Kolla hlustaði á tvo áhyggjufulla Sjálfstæðismenn tala um flokkinn sinn – „Voru þeir að gera nokkuð sem þeim féll greinilega þungt“

Kolla hlustaði á tvo áhyggjufulla Sjálfstæðismenn tala um flokkinn sinn – „Voru þeir að gera nokkuð sem þeim féll greinilega þungt“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Hræðslan við breytingar er íhaldinu ofviða

Sigmundur Ernir skrifar: Hræðslan við breytingar er íhaldinu ofviða
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Æskuást

Óttar Guðmundsson skrifar: Æskuást