Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra segir ástandið í Reykjanesbæ vera grafalvarlegt og að íbúar hafi verið sviptir frelsi sínu vegna mengunar frá verksmiðju United Silicon í Helguvík. Segir Björt í færslu á Fésbók í dag að verksmiðjan ógni heilsu og líðan íbúa:
Fólk er svipt frelsi sínu því það lokar dyrum, gluggum og þorir ekki að senda börn sín út í andrúmsloft sem það finnur greinilega sjálft að ógnar heilsu þeirra og líðan,
segir Björt. Hefur hún gefið út þau skilaboð að gefa eigi enga afslætti af mengunarstöðlum, lýðheilsuviðmiðum og aðgerðum í þá veru. Hún segir að margir hafi sett sig í samband við sig og krafist svara, hefur hún sjálf beðið um upplýsingar frá Umhverfisstofnun og bíður hún svara:
En það er þó skýrt að ef slökknað hefur á ljósbogaofni US (eða hann farið undir ákv hitastig) þá hefur Umhverfistofnun þegar boðað stöðvun á framleiðslu í bréfi sínu til fyrirtækisins í sl. viku.