Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segir að núverandi ríkisstjórn og ríkisstjórnin sem var á undan, hafi gert breytingar á skattkerfinu sem ýtt hafi undir að skattbyrði tekjulægsta hópsins á Íslandi hafi aukist langmest. Fram kom í skýrslu ASÍ sem greint var frá í gær að skattbyrði allra tekjuhópa hefði aukist á tímabilinu 1998 til 2016 en aukist langmest hjá tekjulægsta hópnum.
Sjá einnig: Skattbyrði hefur aukist langmest hjá tekjulægstum
Segir ASÍ að þróunina megi einkum rekja til þess að persónuafsláttur hafi ekki fylgt launaþróun sem hefur aukið skattbyrði lægri launa mest. Þar að auki hafi stuðningur vaxtabótakerfisins minnkað verulega á tímabilinu og fækkað í þeim hópi sem fær greiddar vaxtabætur vegna tekju og eignaskerðinga. Katrín segir á Fésbók að síðasta og núverandi ríkisstjórn hafi beinlínis gert breytingar sem ýta undir hærri skattbyrði tekjulægsta hópsins, til dæmis með því að leyfa auðlegðarskattinum að renna sitt skeið á sama tíma og ríkustu tíu prósentin eiga þrjá fjórðu alls auðs á Íslandi, fækka skattþrepum og með því að hækka skatt á matvæli sem leggst þyngra á tekjulægri hópa en tekjuhærri:
Þá samþykkti sú ríkisstjórn sem nú situr fjármálaáætlun í vor þar sem markvisst er dregið úr húsnæðisstuðningi næstu fimm árin – á sama tíma og ófremdarástand ríkir á húsnæðismarkaði. Tillögur okkar um að hækka tekju- og eignamörk vaxta- og barnabóta voru felldar nú fyrir áramót þannig að pólitískur vilji meirihlutans á Alþingi er nokkuð skýr.
Fagnaðarefni þegar skattbyrði þyngist
Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir hins vegar að þyngri skattbyrði tekjulægsta hópsins sé vegna þess að hópurinn sé aflögufærari nú en áður:
Þetta er svipað og þegar fyrirtæki greiðir engan skatt, þegar það græðir ekkert, en greiðir tekjuskatt, um leið og það fer að græða. Skattbyrði þess hefur þyngst, en það er fagnaðarefni, til marks um betri afkomu,
segir Hannes í pistli á Pressunni. Telur hann líkt og áður persónuafsláttur ætti ekki að hækka í samræmi við laun því þá greiddu menn ætíð sama hlutfall af tekjum sínum í skatt óháð því hvort þær hækkuðu:
Ég tel eðlilegast, að allir taki þátt í að greiða fyrir þjónustu ríkisins, en sumir séu ekki skattfrjálsir og geti síðan greitt atkvæði með því að þyngja skattbyrði á aðra, eins og Vinstri grænir virðast vilja.