„Nútímastjórnmálamenn telja „likes“ eins og vöggubörn tærnar og því fór sem fór. Ungir Framsóknarmenn hjóluðu í borgarfulltrúann, sem sætti tíðindum því ekki hafði heyrst í þeim áður á kjörtímabilinu. Og formaður Framsóknarflokksins sagðist fjórum sinnum „virða ákvörðun“ borgarfulltrúans, hvað sem það þýðir, en sagði dapur að fulltrúinn hefði lent í „orðræðu“. Það er skiljanlegt að formanninum væri brugðið, því það að lenda í „orðræðu“ er mun alvarlegra en að fara fyrir björg eða undir járnbrautarlest, sem er snúið hér á landi, en mun lagast með borgarlínunni.“
Þetta segir leiðarahöfundur Morgunblaðsins í leiðara blaðsins í dag, en leiða má að líkum að þar haldi Davíð Oddsson ritstjóri í penna. Ræðir hann þar um úrsögn Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur borgarfulltrúa úr Framsóknarflokknum vegna viðbragða flokksmanna við ummælum hennar um „sokkinn kostnað“ við kennslu barna flóttamanna og hælisleitenda.
Sjá einnig: „Samleið minni með Framsóknarflokknum er nú lokið“
Rifjar Davíð upp að fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar hafi verið útlit fyrir að Framsóknarflokkurinn myndi ekki ná inn manni en svo fór að flokkurinn fékk tvo borgarfulltrúa:
Ekki verður fullyrt svo óyggjandi sé hvað breyttist. En það hjálpaði til að flokkurinn virtist taka bannfært efni til lágmarks umræðu. Og eins hitt að hann var heilli í flugvallarmálinu en aðrir flokkar,
segir Davíð og bætir við:
En nú varð það fyrra málið af þessum tveimur sem hrakti fulltrúa Framsóknar burt. Fulltrúinn hafði talað um „sokkinn kostnað“ við kennslu innflytjenda sem óvíst væri að dveldu hér áfram. Það er tyrfið tal, en þó leyfilegt umræðuefni. En samstundis brást náð netheima og „þeir loguðu“. Það er lýsingin þegar þessir 200 í fasta liðinu umturnast.
Davíð segir að svona sé stjórnmálalega staðan í dag:
Þegar að Framsókn strýkur sér létt utan í „orðræðu“ sem fleytti henni til áhrifa síðast, þá er öll von úti.
„Pólitískt herbragð“
Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans svarar Davíð á Fésbókarsíðu sinni nú í morgun:
Líkt og alvöru popúlista sæmir segir leiðarahöfundurinn að pólitísk rétthugsun fámennrar netklíku komi í veg fyrir að umræðan um hælisleitendur sé tekinn. Eitt dyggasta fylgitungl hans var í viðtali við útvarpsstöð í vikunni og fór með svipaða möntru,
segir Þórður Snær og vísar til nýlegs útvarpsviðtals við Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor:
„Þar lét hann reyndar að því liggja að hælisleitendur sem hingað koma kæmu til að leggjast á velferðarkerfið og láta það sjá fyrir sér. Það er reyndar alrangt. Hagtölur sýna það einfaldlega að félagsleg framfærsla hefur dregist saman í beinu samhengi við aukinn fjölda innflytjenda.“
Segir Þórður Snær að þetta rími einnig ágætlega við grein Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í Viðskiptablaðinu í gær.
Sjá einnig: Ef við þorum ekki að ræða stærstu úrlausnarefnin er umræðan og lausnin eftirlátin öfgamönnum
En fólk skal átta sig á að þetta er pólitískt herbragð. Það að storka tilbúnum pólitískum réttrúnaði og mála sig sem þá einu sem þori að taka umdeilda umræðu. Þetta er bragðið sem hefur gagnast Trump og ýmsum evrópskum stjórnmálamönnum gríðarlega vel. Það gengur út á að mála upp velvilja og samkennd sem barnalegan réttrúnað sem ógni „sönnum landsmönnum“. Megintilgangurinn er að stilla innflytjendum og flóttafólki upp sem andstæðingum þeirra sem telja aðstæður sínar ekki boðlegar.
Segir Þórður Snær það enga hræðslu vera við að taka umræðu um málefni flóttamanna eða annarra innflytjenda hér á landi:
Og það er sannarlega ekki andstaða, að mér vitandi, við það neinsstaðar að flýta fyrir afgreiðslu hælisumsókna eins og hægt er til að fólk sitji ekki fast hérlendis árum saman að bíða örlaga sinna. Hin ótekna pólitíska umræða snýst alls ekki um það.
Hins vegar þurfi að taka djúpa pólitíska umræðu sem byggi á getu okkar til að taka á móti fólki sem þurfi á hjálp að halda sem og þörf okkar fyrir fólk til að sífellt eldri þjóð geti haldið upp þeim lífsgæðum sem við viljum hafa:
Munurinn á hópunum sem vilja taka umræðuna er hins vegar nálgunin á hana. Hluti vill nálgast hana af samkennd og með vísun í staðreyndir. Hinir, popúlistarnir, vilja nálgast hana út frá hræðsluáróðri, tilfinningum og pólitísku valdabrölti.