Netverslunin AHA mun gera íbúum höfuðborgarinnar kleift að fá mat og vörur sendar með dróna, eða flygildi. Verða íbúar höfuðborgarinnar þeir fyrstu í heiminum sem geta nýtt sér slíka þjónustu en fram til þessa hafa tilraunir með drónasendingar aðeins verið gerðar í dreifbýli á Englandi. Er slíkum sendingum ætlað að auka skilvirkni í heimsendingaþjónustu, draga úr orkunotkun sem og að stytta sendingartímann.
Maron Kristófersson annar stofnandi og eigandi AHA segir í samtali við mbl.is í dag að til að byrja með verði sent frá fyrirtækjum og veitingastöðum í nágrenni höfuðstöðva AHA í Skútuvogi og lent verði við Skemmtigarðinn í Grafarvogi þar sem viðskiptavinir geti sótt vöruna eða matinn. Drónarnir verði aðeins tveir til að byrja með en gert sé ráð fyrir að fjölga þeim á næstunni.
Maron segir aðeins tímaspursmál hvenær sendingarnar verði svo heim að dyrum:
Spurningin er hvort að það verði eftir eitt ár, þrjú ár eða fimm ár. Eins og staðan er í dag myndi ég ekki vilja vera ábyrgur fyrir því fljúga yfir garða fólks og láta pakkann síga niður en þegar við erum búin að fara nokkur þúsund ferðir er hægt að skoða næstu skref.