Mikil umræða hefur orðið um hvort fjarlægja eigi gamlar styttur sem eru minnisvarðar um vonda liðna tíma, umræðan blossaði fyrst upp í Bandaríkjunum þegar stytta af Robert E. Lee helsta hershöfðingja Suðurríkjanna í Þrælastríðinu var fjarlægð í bænum Charlottesville í Virginíu. Nýnasistar mótmæltu því að styttan yrði fjarlægð, í mótmælum gegn þeirra mótmælum lét kona lífið. Nú er það til umræðu víða um Bandaríkin að fjarlægja minnisvarða um leiðtoga Suðurríkjanna, nú þegar er búið að taka ákvörðun um að fjarlæga styttur eða færa þær á minna áberandi staði.
Umræðan Vestanhafs hefur leitt af sér vangaveltur í Evrópu um hvort fjarlægja eigi minnisvarða um gamla kommúnista sem hafi haft ófá líf á samviskunni líkt og þegar styttur af nasistaleiðtogum voru fjarlægðar eftir síðari heimstyrjöldina. Egill Helgason ræddi málið hér á Eyjunni í gær, sagði hann að Frakka myndu seint fjarlægja styttur af Napóleoni Bónaparte, sjálfur væri honum mjög illa við styttur í Bretlandi og Frakklandi af hershöfðingjum úr fyrri heimstyrjöldinni:
„Ég get varla ímyndað mér meiri drullusokka en þá sem sendu milljónir ungra manna út í vígvelli og í opinn dauða, eins og ekkert væri, á árunum 1914 til 1918, í því gjörsamlega tilgangslausa stríði. Enn stendur stytta af Haig á mjög fínum stað í London og af Foch í París. Ég verð að viðurkenna að ég hræki alltaf pínulítið á laun þegar ég sé styttur af þessu tagi,“
segir Egill. Hér á landi séu hins vegar engar styttur af ógeðskörlum sem okkur gæti dottið í hug að taka niður en slíkt var til umræðu á Fésbókarsíðu Stefáns Pálssonar sagnfræðings. Spurði hann ef við Íslendingar færum að rífa niður gamlar styttur, hverri ætti þá að fórna fyrst. Viðbrögðin létu ekki á sér standa, sagði Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur:
Að sjálfsögðu Kristjáni IX.
Jón Viðar Jónsson gagnrýnandi var ekki sáttur við þá hugmynd og sagði:
Afar ósmekkleg hugmynd að taka niður Kristján IX þar sem hann stendur fyrir framan stjórnarráðið „með frelsisskrá í föðurhendi“ eins og Matthías orti.
Valur Gunnarsson kvikmyndagagnrýnandi segir að fyrst það sé verið fjarlægja styttur af þrælahöldurum þá ætti að fjarlægja Ingólf Arnarsson af Arnarhóli:
Ingólfur Arnarsson var náttúrulega þrælahaldari og þrælamorðingi. Samkvæmt því ætti hann að fara.
Arnar Eggert Thoroddsen poppfræðingur segir að fjarlægja þurfi styttuna að Héðni Valdimarssyni sem stendur við Hringbraut:
Með djúpri virðingu fyrir vinum og ættingjum. En styttan er skelfileg, vegna þessa fótaskurðar.
Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóri stingur upp á brjóstmyndinni af Davíð Oddssyni fyrrverandi borgarstjóra sem er í ráðhúsinu:
Brjóstmyndin af Davíð í ráðhúsinu hefur mér alltaf fundist soldið krípí, sérstaklega af því að hann er víst ennþá lifandi,
segir Jón, Stefán tekur undir það því það sé góð vinnuregla að gera bara líkneski af látnu fólki. Ekki voru þó allir á því að fjarlægja ætti styttur heldur frekar bæta við, til að mynda segir Ármann Jakobsson sagnfræðingur
Ég vil Leirfinn fyrir framan hæstaréttarhúsið.