Karen Kjartansdóttir sem starfaði lengi hjá Fréttastofu Stöðvar 2 hefur afþakkað starf á RÚV. Til stóð að hún myndi stýra Morgunútvarpinu á Rás 2. Karen hefur nú afþakkað starfið og ráðið sig til United Silicon. Áður hafði Karen starfað sem samskiptastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi frá 2013 til 2016.
United Silicon er eitt umdeildasta fyrirtæki landsins. Undanfarið hafa verið fluttar ótal fréttir um starfsemi fyrirtækisins, en íbúar hafa kvartað yfir mengun, eldur hefur komið upp í verksmiðjunni oftar en einu sinni og þá lokaði umhverfisstofnun verksmiðjunni á dögunum. Mikil óánægja hefur verið með starfsemina vegna mengunar frá verksmiðjunni sem hefur valdið íbúum í nærliggjandi byggðum óþægindum og íbúar kennt verksmiðjunni um veikindi sín.
Karen tjáir sig um ákvörðun sína á Facebook og segir líklegt að hún muni sjá eftir þeirri ákvörðun sinni að hafna starfi á RÚV:
Ég er ákaflega þakklát RÚV fyrir að hafa viljað fá mig til starfa. Þar fer fram magnað og mikilvægt starf sem almenningur getur verið stoltur af. Mér þykir einnig afar leitt að hafa þurft að hafna góðu starfstilboði og mun eflaust oft sjá eftir þessari ákvörðun. Hins vegar virðist enginn hörgull á hæfileikafólki þarna upp í Efstaleiti.
Karen segir enn fremur:
Þótt mér þyki fá störf jafn mikilvæg í nokkru samfélagi og vel unnin verk innan fjölmiðla þá fannst mér sú reynsla sem verkefni innan United Silicon færa mér þess eðlis að ég ákvað að afþakka gott boð og þakka sýndan skilning á ákvörðun minni. Takk takk. Ég hlakka svo til áskoranna næstu mánaða, og kvíði þeim um leið, svo ég sé alveg hreinskilin, en það eru svo sem mínar kjöraðstæður.