fbpx
Miðvikudagur 30.júlí 2025
Eyjan

Bók í smíðum um sögu flugvalla á Íslandi – Flugvöllur á Akranesi

Ari Brynjólfsson
Sunnudaginn 3. september 2017 11:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ljósmynd Árna Böðvarssonar tekin í Heimaskagavör á Akranesi fyrir 88 árum síðan, sumarið 1929. Sjóflugvélin Súlan er lent. Fyrir ströndu er skúta og þarna er Esjan handan flóans. Ljósmyndir af komu Súlunnar til Akraness sem skoða má á vef Ljósmyndasafns Akraness eru elstu heimildir um flugvélar á Skipaskaga.

Isavia er nú að láta rita 70 ára sögu flugvalla og flugleiðsöguþjónustu á Íslandi. Höfundur hennar er Arnþór Gunnarsson sagnfræðingur. Í ritinu verður m.a. stutt yfirlit um flesta flugvelli og flugbrautir sem lagðar hafa verið eða notaðar að einhverju marki hér á landi.

Friðþór Eydal hjá Isavia segir að í tenglsum við þetta væri vel þegið að fá gamlar ljósmyndir af flugvöllum á Vesturlandi og frásagnir af þeim.

Meðal annars er leitað að myndum  af flugvöllum á Akranesi og Narfastaðamelum sunnan undir Hafnarfjalli.

Til dæmis væri áhugavert að heyra hvort Akurnesingar hafi komið eitthvað nálægt því að flugvöllur var gerður á Narfastaðamelum og hve mikið Skagamenn notuðu þann flugvöll. Við höfum heyrt að fótboltaliðið hafi e.t.v. notað hann eitthvað,

segir Friðþór.

Hægt er að senda honum upplýsingar í tölvupóstfang fridthor.eydal@isavia.is eða hringja í síma 424 4252.

Hér til gamans fylgir svo ágrip að sögu flugvallarins á Akranesi sem Arnþór Gunnarsson hefur skrifað. Eins og kemur fram þá var völlurinn aflagður fyrir 40 árum síðan og síðan hefur enginn flugvöllur verið á Akranesi. Í því sambandi má svo rifja upp að nokkuð uppnám varð fyrr í sumar þegar lítil einkaflugvél lenti þar á golfvellinum.

 

Flugvöllur á Akranesi

Frá ofanverðum fimmta áratugnum og fram á áttunda áratuginn reyndu nokkrir minni flugrekendur fyrir sér með áætlunarflug og leiguflug á milli Reykjavíkur og Akraness en þessar tilraunir gengu heldur brösuglega.

Fyrsta tilraunin með áætlunarflug var gerð árið 1948 en þá hóf flugfélagið Vængir að bjóða upp á ferðir með litlum flugvélum og var lent í fjörunni á Langasandi við Akranes.  En þessi nýbreytni rann út í sandinn að fáum árum liðnum. Ennþá skammlífari varð tilraun sem flugfélagið Akraflug (tengdist flugskólanum Þyti í Reykjavík) gerði árið 1965. Tók félagið á leigu skeiðvöll hestamannafélagsins Dreyra við Berjadalsá, nokkra kílómetra innan við kaupstaðinn, og notaði sem lendingarstað.

Flugvallarstæðið á Akranesi stendur við Blautós skammt frá ósi Berjadalsár og er nú notað sem skeiðvöllur. Myndin var tekin í vikunni. Fjær er hesthúsahverfið í Æðarodda og svo Akranesbær.

Ljóst er að ýmsir höfðu trú á flugsamgöngum milli Akraness og Reykjavíkur og um miðjan sjöunda áratuginn gerðu langtímaáætlanir Flugmálastjórnar ráð fyrir að gerður yrði flugvöllur með tveimur um það bil 1000 metra löngum brautum vestan Akrafjalls, um tvo til þrjá kílómetra frá kaupstaðnum.  Aksturstíminn milli Reykjavíkur og Akraness var rösklega ein og hálf klukkstund og því notuðu margir farþega- og bílferjuna Akraborg en siglingin tók heldur skemmri tíma en aksturinn.

Hinn 18. nóvember 1971 hóf flugfélagið Vængir (ótengt áðurnefndu félagi með sama nafni) áætlunarflug milli Reykjavíkur og Akraness (íbúafjöldi þá um 4500). Tók flugið aðra leiðina aðeins sex mínútur og eftir því sem dagblaðið Tíminn komst næst var „þetta stytzta áætlunarflugleið í veröldinni“. Félagið hafði útbúið rúmlega 400 metra langa flugbraut í samvinnu við Akranesbæ á áðurnefndum skeiðvelli og áformaði að hefja einnig farþegaflug til Borgarness um leið og búið væri að gera flugbraut þar.  Ekkert var af flugi til Borgarness, hins vegar hélt félagið úti áætlunarflugi til Akraness í nokkur ár, þó ekki samfellt. Þegar best lét voru farnar nokkrar ferðir á dag. Að sögn starfsmanna Vængja flutti félagið rúmlega 5000 farþega á flugleiðinni árið 1972, sem var tæplega tíundi þess sem Akraborg flutti sama ár.

Flugvöllurinn (skeiðvöllurinn) á Akranesi var á skrá Flugmálastjórnar á áttunda áratugnum. Ein flugbraut: NA/SV, 418×23 metrar. Flugvöllurinn var tekinn af skrá í nóvember 1978.

Hér má sjá og lesa Vesturland í heild:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Æskuást

Óttar Guðmundsson skrifar: Æskuást
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Greinir heimsókn Ursulu von der Leyen og spyr hvað stjórnarandstaðan óttist

Greinir heimsókn Ursulu von der Leyen og spyr hvað stjórnarandstaðan óttist
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Lánlítil stjórnarandstaða – ætlar aftur í slag gegn þjóðinni

Orðið á götunni: Lánlítil stjórnarandstaða – ætlar aftur í slag gegn þjóðinni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Brynhildur Guðmundsdóttir tekur við sem forstjóri Daga hf.

Brynhildur Guðmundsdóttir tekur við sem forstjóri Daga hf.
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Ferðaþjónustan á betra skilið

Thomas Möller skrifar: Ferðaþjónustan á betra skilið
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?