Björgvin G. Sigurðsson skrifar:
Átök og óvissa einkenna stjórnmálin í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Nýir flokkar reyna fyrir sér og stilla strengina til framtíðar og þeir gömlu freista þess að finna traust land undir fótum sér. Stór hluti kjósenda hefur látið af tryggð sinni við tiltekinn flokk og mátar fólk og stefnumið í hvert sinn sem gengið er til kosninga.
Ríkisstjórnin stendur á hálu svelli og veikum grunni. Gamli valdaflokkurinn til hægri heldur henni saman á meðan nýju flokkarnir tveir eiga í vaxandi erfiðleikum við að halda sjó. Flótti er brostinn á lið Bjartrar framtíðar og má mikið vera ef samstarfið heldur út kjörtímabilið, þó ótti við afdrif í kosningum geti lengi verið lím sem heldur.
Flokkur fólksins getur vel náð flugi. Takist honum þokkalega að manna framboðslista sína og detti hann ekki á kaf í andstyggilegt fen útlendingafóbíu og rasisma. Hinsvegar er það hryggilegt að í því grugguga vatni virðast þeir fiska sem meta möguleika á nýjum framboðum.
Margir telja að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, breyti málfundarfélagi sínu í flokk og sprengi upp stöðuna hægra megin við miðju. Engin spurning er að hann á mikla möguleika á að sópa að sér nokkru fylgi. Bæði af Framsókn og Sjálfstæðisflokki sem gætu farið illa frá slíkum slag.
Framsókn virkar klofin og áttavilt, og bíður þess sem verða vill hjá fyrrum formanni flokksins. Fari hann fram með nýtt framoð mun það hafa ómæld áhrif á Framsóknarflokkinn.
Hinsvegar verður því seint trúað að Sigmundur Davíð fari fram á forsendum hægri popúlista sem ala á hræðslu og ótta við það óþekkta og útlenda. Lengi skal manninn reyna en það kæmi þeim sem þetta ritar illa á óvart ef Sigmundur Davíð æddi út í þá eðju.
Átök, óvissa og óvænt framboð munu setja svip sinn á landslag stjórnmálanna á næstu misserum. Enn er vinstri vængurinn í sárum og á eftir að finna sína fjöl. Án kjölfestu frjálslyndrar jafnaðarstefnu í breiðum flokki á sá hluti stjórnmálanna litla möguleika á því að komast til raunverulegra áhrifa, nema sem tímabundin hækja Sjálfstæðisflokksins.
Veturinn í vetur sker úr um hvort jafnaðarmenn nái vopnum sínum í núverandi flokkum eða hvort verði að koma til rækileg uppstokkun undir nýjum merkjum og formerkjum. Það verkefni þolir enga bið.
Grein Björgvins er leiðari Suðra. Smelltu hér til að lesa blaðið.