Samkvæmt vef Orkuveitu Reykjavíkur, er óútskýrður kynbundinn launamunur fyrirtækisins og dótturfélögum þess nú 0.2 prósent, konum í hag. Er þetta í fyrsta skipti sem launamunurinn er konum í hag. Stefna OR og dótturfélaganna – Veitna, Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur – hefur verið að útrýma kynbundnum launamun. Hann hefur verið talinn innan tölfræðilegra skekkjumarka frá árinu 2015 og hafa fyrirtækin hlotið gullmerki jafnlaunaúttektar PwC frá þeim tíma.
Í glímunni við kynbundinn launamun hefur Orkuveita Reykjavíkur átt samstarf við Pay Analytics, bandarískt fyrirtæki þar sem dr. Margrét V. Bjarnadóttir, aðstoðarprófessor í aðgerðagreiningum við háskóla í Wisconsin er í forsvari. Smíðað var rafrænt greiningartæki sem gerir stjórnendum kleift að kalla fram á svipstundu áhrif hverrar einstakrar launaákvörðunar á kynbundinn launamun hjá fyrirtækinu í heild. Árangurinn er að nú hefur tekist að ná því markmiði fyrirtækisins að útrýma óútskýrðum kynbundnum launamun.
Innan samstæðu OR starfa um 500 manns hjá Orku náttúrunnar, Veitum, Gagnaveitu Reykjavíkur og í móðurfélaginu. Um þriðjungur er konur. Kynjahlutföll eru ólík eftir starfsgreinum. Konur eru fæstar meðal iðnaðarfólks en flestar meðal skrifstofufólks. Stjórnendur skiptast til helminga milli kynjanna og var niðurstaða úttektar endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young fyrir Konur í orkumálum vorið 2017 vor að áhrifa kvenna innan orku- og veitufyrirtækja gæti langmest hjá fyrirtækjunum innan samstæðu OR. Fyrirtækið vinnur að því að jafna kynjamuninn innan starfsgreina meðal annars með því að kynna iðngreinar fyrir stelpum og strákum í grunnskóla.