fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Sport

Evrópuleikarnir í gíslingu Íslendinga

Ótrúleg frammistaða Björgvins Karls og Ragnheiðar Söru í dag

Ritstjórn DV
Laugardaginn 28. maí 2016 21:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björgvin Karl Guðmundsson og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir tóku Evrópu- og Afríkuleikana í CrossFit – Meridian Regional – í gíslingu í dag með ótrúlegri frammistöðu sinni. Ragnheiður Sara og Björgvin Karl héldu sem fastast í 1. sæti mótsins á öðrum af þremur keppnisdögum. Vandséð er að nokkur geti ógnað stöðu þeirra úr þessu, en Annie Mist Þórisdóttir, tvöfaldur heimsmeistari í íþróttinni, sótti þó hart að Ragnheiði Söru í allan dag og situr hún í 2. sæti.

„Ég held hann hafi haft af mér 3. eða 4. sætið,” sagði Annie þegar DV tók hana tali á milli viðburða Caja Mágica-höllinni í Madríd í dag, aðspurð um dómara sem beitti hana mikilli hörku þegar það kom að dómgæslu í fjórðu keppni dagsins. „Við kláruðum allar á sömu sekúndu – eða þrjár á sömu sekúndunni. Á tíunda clean-inu sagði hann að ég væri ekki búin að rétta úr og ég stend með stöngina og bara ‘er ég ekki búin að rétta úr?’ en þurfti að gera annað „rep” og það kostaði mig alla veganna 2-3 sekúndur.”

Hér má sjá viðtal við Annie eftir daginn.

Fyrsta sætið barátta Ragnheiðar Söru og Annie

Annie er tvöfaldur heimsmeistari í CrossFit og segir hún mótið nú um helgina í raun vera fyrst og fremst keppni á milli hennar og Ragnheiðar Söru – hvor það verður sem mun á endanum standa uppi sem sigurvegari mótsins.

„Ég myndi segja að við tvær væru bestar hérna,” sagði Annie. „Við erum að berjast um 1. og 2. sætið, held ég. Held þetta eigi eftir að enda þannig í lok dagsins á morgun. Svo er það Games og það er þá sem þetta skiptir virkilega máli. Þá vil ég ekki að svona hlutir gerist,” með dómarann eins og í dag.

Þuríður Erla Helgadóttir, sem keppir fyrir CrossFit Sport, sýndi mjög góða tilburði í dag og lauk deginum í 4. sæti. Fimm efstu keppendurnir í hverjum flokki fá þátttökurétt á heimsleikum CrossFit sem fara fram í Kaliforníu í sumar.

Björgvin jarðaði samkeppnina

Eins og áður sagði hirti Björgvin Karl, sem keppir fyrir CrossFit Hengil í Hveragerði, 1. sætið eftir þrautir dagsins og vegur þar þungt að hann bakaði bókstaflega aðra keppendur í Madríd í gær. Sigurður Hafsteinn Jónsson frá CrossFit XY í Garðabæ, hafnaði í 13. sæti þegar búið var að telja saman stig þátttakenda í dag. Frederik Aegidius, danskur kærasti Annie Mist sem keppir undir íslenskum fána CrossFit Reykjavík, snéri erfiðari stöðu frá því í gær sér í hag með frábærri frammistöðu í fjórðu keppni dagsins í dag, þar sem keppendur öttu kappi í hnébeygjum á öðrum fæti (e. pistols) og jafnhendingu (e. clean). Frederik lauk deginum í 8. sæti.

Ragnheiður Sara á leikunum í dag.
Í hörku formi Ragnheiður Sara á leikunum í dag.

Óttast er að Hinrik Ingi Óskarsson, keppandi CrossFit Reykjavíkur og ein helsta vonarstjarna íslenskra karla í íþróttinni, hafi slitið liðband í keppninni í dag. Hann sýndi ótrúlega tilburði í þriðju keppni dagsins og var þriðji í mark eftir að hafa lokið 104 boltaköstum og 52 upphífingum. Á leiðinni yfir marklínuna var hann þó var við einhver óþægindi í hægra hnénu og átti auðsýnilega erfitt með síðustu skrefin. Í ljósi atburða dagsins mun Hinrik ekki ljúka keppninni.

Íslendingar líka sterkir í liðakeppninni

Þrjár íslenskar CrossFit stöðvar sendu lið til þess að keppa fyrir sína hönd í liðakeppninni, CrossFit Reykjavík, CrossFit XY og CrossFit Sport í Sporthúsinu. Í liðaflokki var sænska liðið Nordic OPEX í efsta sætinu, en Íslendingurinn Björk Óðinsdóttir er meðal liðsmanna þess. Í 3. sæti liðakeppninnar var CrossFit Copenhagen, en Oddrún Eik Gylfadóttir og Eiríkur Baldursson keppa með Dönunum. CrossFit XY frá Garðabæ kom sér fyrir í 5. sæti keppninnar en Team CrossFit Nordic, sem inniheldur Íslendinginn Núma Katrínarson, tók 6. sætið. CrossFit Reykjavík hafnaði í 7. sæti keppninnar og lið CrossFit Sport úr Kópavogi færðist upp um tvö sæti frá því í gær og situr í 11. sæti eftir annan dag keppninnar.

Björgvin Karl hvetur Sigurð Hafstein áfram.
Átök Björgvin Karl hvetur Sigurð Hafstein áfram.

Alls eru 28 Íslendingar skráðir til leiks á mótinu um helgina og mikill fjöldi Íslendinga er staddur í Madríd til þess að hvetja sitt fólk til dáða. Í fjórðu keppni dagsins í kvennaflokki í dag ætlaði allt um koll að keyra þegar dómari Annie krafðist þess að hún endurtæki jafnhendingu í síðustu umferðinni. Það varð henni ansi dýrkeypt þar sem aðeins munaði níu sekúndubrotum á Annie og Ragnheiði Söru í keppninni um 5. sætið, sem Ragnheiður Sara landaði. Þá munaði aðeins 15 sekúndubrotum á Ragnheiði Söru og Kristin Holte frá Noregi, sem hafnaði í 4. sæti í fjórðu keppninni.

Keppninni verður framhaldið strax í fyrramálið og lýkur síðdegis á morgun.

– Eftir Árna Friðberg Helgason

Frá leikunum í dag.
Stemming Frá leikunum í dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Byrjunarlið KR og Breiðabliks – Ísak og Patrik á bekknum

Byrjunarlið KR og Breiðabliks – Ísak og Patrik á bekknum
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

England: Manchester City í engum vandræðum

England: Manchester City í engum vandræðum
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Kominn með nóg af sömu spurningunum – ,,Mér er drullusama“

Kominn með nóg af sömu spurningunum – ,,Mér er drullusama“
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Sambandið hangir á bláþræði eftir framhjáhaldið: Stórstjarnan gæti fengið óþarfa athygli í sumar – ,,Hefur áhrif á mig á börnin“

Sambandið hangir á bláþræði eftir framhjáhaldið: Stórstjarnan gæti fengið óþarfa athygli í sumar – ,,Hefur áhrif á mig á börnin“