fbpx
Fimmtudagur 14.ágúst 2025

Geisladiskurinn lifir

Geisladiskabúð Valda er elsta plötubúðin í miðbænum – Rónar jafnt sem ráðherrar versla við Valda – Sólstafir spila í portinu á alþjóðlega plötubúðadaginn

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 15. apríl 2016 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Geisladiskar, hljómsveitabolir, myndasögur og tölvuleikir eru uppi um alla veggi – vínylplötur og DVD-myndir í bakherberginu. Það er lágt til lofts og gangurinn svo þröngur að maður þarf að smeygja sér fram hjá öðrum gestum sem fletta í gegnum endalausa staflana. Í græjunum er þungarokk spilað á lágum hljóðstyrk. Bjallan í hurðinni klingir. Stöðugur straumur af viðskiptavinum rennur inn um dyrnar og niður í þessa litlu steinsteyptu viðbyggingu sem hýsir Geisladiskabúð Valda á Vitastígnum.

Falinn á bak við stafla af diskum á afgreiðsluborðinu er eigandinn, maðurinn á bak við nafnið, Þorvaldur Kristinn Gunnarsson, betur þekktur sem Valdi. Þarna hefur hann staðið vaktina í tæplega tvo áratugi og fóstrað íslenska þungarokkssamfélagið, skapað vettvang fyrir tónlistar- og tölvuleikjanörda af öllum stærðum og gerðum.

Þegar DV kíkti í heimsókn var mikið að gera hjá Valda, nóg af viðskiptavinum auk þess sem skipulagning fyrir alþjóðlega plötubúðadaginn á laugardag var í fullum gangi. Rokksveitin Sólstafir mun spila fría tónleika í portinu á bak við búðina – ef veðrið helst þurrt.

Elti tónlistina frekar en peningana

Ég var að klára viðskiptafræðinám og ætlaði kannski að fara meira út í eitthvað svoleiðis en svo hef ég bara verið hérna síðan – ákvað að elta tónlistina frekar en peningana.

„Ég byrjaði hérna sumarið 1998. Það var bara af því að ég hafði áhuga á tónlist og tölvuleikjum. Ég var að klára viðskiptafræðinám við Háskólann og ætlaði kannski að fara meira út í eitthvað svoleiðis en svo hef ég bara verið hérna síðan – ákvað að elta tónlistina frekar en peningana,“ segir Valdi og glottir.

„Til að byrja með var ekkert þarna bak við,“ segir Valdi og bendir aftur fyrir sig að bakherberginu sem nú er fullt af vínylplötum og DVD-myndum. „Þetta voru diskar, plötur og mjög mikið af vídeóspólum. Í byrjun var ég mikið að selja notað en núna er örugglega sjötíu prósent af því sem ég er með nýtt,“ segir hann.

Ungur maður kemur upp að afgreiðsluborðinu og réttir Valda þungarokksplötu á vínyl og forvitnast svo um hvort það styttist í að hann fái boli merkta sænsku svartmálmssveitinni Watain. Það finnst Valda líklegt og bendir honum á að fylgjast með á Facebook-síðu búðarinnar hvenær sendingin kemur.

Alveg frá upphafi hefur búðin verið vettvangur og nánast heimavöllur íslenska þungarokkara. „Ég var sjálfur mikill þungarokkari þegar ég var krakki og unglingur – og er ennþá. Þegar ég byrjaði var ég með aðeins meira svoleiðis efni en eðlilegt var. Þannig að þetta var svolítið eins og í myndinni The Birds [eftir Alfred Hitchcock], það birtist fyrst einn fugl og síðan koma hundruð fugla á eftir honum.“

Last man standing

Það sem varð stóru búðunum að falli var að þær voru bara að veðja á það sem var vinsælt og seldist vel.

Þegar geisladiskabúðin hóf starfsemi sína voru Skífan og Japis risarnir á geisladiskamarkaðnum. Valdi viðurkennir að hann hafi alls ekki búist við því að vera sá síðasti sem stæði eftir tæpum 20 árum seinna.

„Maður var svo saklaus að maður hélt alltaf að með tímanum myndi úrvalið aukast og búðirnar verða betri. En það sem hefur gerst er eiginlega þveröfugt. Í Hagkaup finnur þú bara það sem er á topp 10, þar er engin breidd. Það sem varð stóru búðunum að falli var að þær voru bara að veðja á það sem var vinsælt og seldist vel. Þegar internetið tók yfir minnkaði salan rosalega á þessum stóru nöfnum. Fólk fór að „downloada“ Britney Spears og öllu þessu. Þessar búðir höfðu ekki viljað taka inn dótið sem ég var með. Þeir sem vildu kaupa eitthvað „solid“ dót höfðu farið þangað og leitað en kannski fundið bara einn safndisk með Led Zeppelin eða eina tónleikaplötu með Grateful Dead, ekkert með King Crimson eða eitthvað svoleiðis. Þær voru búnar að missa þennan markað,“ segir Valdi.

„Maður hefði reyndar líka haldið að með aukinni framþróun og tækni myndu gæðin aukast. En það hefur bara farið niður á við: fólk er að „downloada“ mp3 og vafasömum upptökum úr bíóum.“

Notar þú sjálfur netið til að ná í tónlist og efni?

„Neee … voða lítið. Ég nota Spotify til að kynna mér efni, en ég gæti ekki notað það eingöngu. Það virkar ekki fyrir mig. Ég vil skoða bæklinginn og allt það.“

Á laugardag mun Valdi halda tónleika með þungarokkstjörnunum í Sólstöfum í portinu á bak við búðina – ef veður leyfir.
Hýsir þungarokkarana Á laugardag mun Valdi halda tónleika með þungarokkstjörnunum í Sólstöfum í portinu á bak við búðina – ef veður leyfir.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Geisladiskar ekki verri en vínyllinn

Maður með verkfærabelti spyr hvort að Valdi kaupi ekki örugglega notaðar vínylplötur – spilarinn hafi bilað í síðustu flutningum og nú lægju plöturnar hans óspilaðar í geymslunni. Valdi jánkar því, blaðar í gegnum bunkann og býðst til að kaupa nokkrar klassískar rokkplötur en býður smápening í íslensku plöturnar. „Fólk er oft að hringja og segja að það eigi voða fínt safn af íslenskum plötum, allt þetta góða: Stuðmenn, Ríó Tríó og Bubba, en þetta er bara til í tonnatali og selst ekkert mikið.“ Iðnaðarmanninum finnst tilboðið ekki nógu gott svo hann kveður vinalega og gengur út með plöturnar.

Persónulega finnst mér hljómurinn á geisladiskunum ekkert verri en á plötu, bara öðruvísi.

„Þegar ég byrjaði vildi nánast enginn kaupa vínyl. Þá voru menn að spyrja hvenær ég myndi hreinsa burt þetta rusl. Nú eru jafnvel þessir sömu menn að reyna að losa sig við diskana sína,“ segir Valdi og hlær. „Alveg til svona 2010 var CD aðalmálið. Síðan hefur það minnkað en það er alveg sala ennþá, og salan fer ekki lengur minnkandi. Það er alla vega jákvætt,“ segir hann.

„Persónulega finnst mér hljómurinn á geisladiskunum ekkert verri en á plötu, bara öðruvísi. En þessar umræður geta orðið mjög heitar. Svo eru kasetturnar líka að koma aftur til baka. Það eru að koma út nýjar black-metal og pönk-kasettur. Ég hefði aldrei búist við því,“ segir Valdi.

Rónar, ráðherrar … og slökkviliðsmenn

Hvernig fólk er það sem kemur í búðina?

Þetta er mjög breiður hópur, allt frá göturónum og upp í ráðherra.

„Það er rosa mikið af ungu fólki, en þetta er mjög breiður hópur, allt frá göturónum og upp í ráðherra,“ segir hann.

„Og slökkviliðsmenn,“ skýtur eldri maður inn í – hann stendur álengdar og hlustar á okkur – og þegar færi gefst spyr hann um diska með Gunnari Gunnarssyni píanóleikara.

Valdi vísar honum að djass-hillunni. Eftir nokkra brandara og góðglettnar athugasemdir um djass og þungarokk fer slökkviliðsmaðurinn að segja ævintýrasögur úr brunaeftirlitsferðum á tónleikastaði. Til dæmis þegar hann reyndi að elta uppi og skamma trommarann í Brain Police eftir að hann spilaði lokalag á tónleikum með logandi trommukjuða. Eftir söguna þakkar slökkviliðsmaðurinn fyrir sig og gengur út með þrjá geisladiska.

„Megas kemur hérna stundum, Páll Óskar og svo náttúrlega allir metalkarlarnir,“ telur Valdi upp og það er viðeigandi að örskömmu síðar birtist alþjóðleg stjarna í metalheiminum, Addi, söngvari og gítarleikari Sólstafa.

„Hefur þú eitthvað heyrt í honum?“ hrópar Addi yfir búðina um leið og hann opnar dyrnar. Þeir þurfa að fá leyfi frá Reykavíkurborg fyrir tónleika sem Sólstafir stefna á að halda í portinu á bakvið búðina á laugardag.

Einn búðargestur sem hefur staðið hljóður og flett í gegnum U2-katalóginn fer að forvitnast um söngvarann og fljótt leiðist samtalið að þungarokki frá upphafi tíunda áratugarins: Metallica, Slayer, Megadeath og Sepultura. Addi og Valdi rifja upp reykvísku búðirnar sem seldu þungarokk, útvarpsþætti sem spiluðu tónlistina og aðferðirnar sem menn notuðu til að taka tónlistina upp á segulbönd og vídeóspólur.

Eftir að Addi hefur kvatt, viðurkennir Valdi að það séu þó ekki síður tölvuleikirnir sem hann hafi gaman af að grúska í og selja. „Það sem mér finnst persónulega skemmtilegast eru gömlu tölvuleikirnir: NES, Nintendo 64, Sega Megadrive, PlayStation 1. Ég sel alveg tölvuleiki í nýjustu leikjatölvurnar en þegar ég sel leik í gömlu Nintendo þá fæ ég eitthvað auka út úr því. Það er ekki endilega það að maður sé að græða. Maður veit bara að það eru ekki margir Nintendo-leikir seldir á Íslandi þann daginn,“ segir Valdi.

Sólstafir spila á tónleikum í portinu á bak við Geisladiskabúð Valda, Laugavegi 64, á alþjóðlega plötubúðadaginn, laugardag klukkan 16.00 – ef veður leyfir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Dæmdir til opinberrar hýðingar eftir að þeir voru staðnir að kossaflensi

Dæmdir til opinberrar hýðingar eftir að þeir voru staðnir að kossaflensi
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

WhatsApp-pabba stefnt fyrir dóm – Móðirin telur sig hæfari vegna „sinna persónulegu eiginleika“

WhatsApp-pabba stefnt fyrir dóm – Móðirin telur sig hæfari vegna „sinna persónulegu eiginleika“
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Erlendur síbrotamaður sem fór huldu höfði rekinn úr landi

Erlendur síbrotamaður sem fór huldu höfði rekinn úr landi
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Liverpool ekki tilbúið að selja Konate þrátt fyrir að vera að kaupa tvo

Liverpool ekki tilbúið að selja Konate þrátt fyrir að vera að kaupa tvo
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Sakamál klúðraðist vegna skyldleika lögreglumanns og brotaþola

Sakamál klúðraðist vegna skyldleika lögreglumanns og brotaþola
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Nokkur félög vilja Sancho og gamlir vinir skoða málið

Nokkur félög vilja Sancho og gamlir vinir skoða málið
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Una Margrét slegin óhug vegna greinar blaðamanns Morgunblaðsins – „Hann er, sem sagt, að vara við lýðræðinu“

Una Margrét slegin óhug vegna greinar blaðamanns Morgunblaðsins – „Hann er, sem sagt, að vara við lýðræðinu“
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Heftið á lofti í Garðabæ: Staðfesta þriðja erlenda leikmanninn í dag – Hefur verið hjá Ajax og fleiri liðum

Heftið á lofti í Garðabæ: Staðfesta þriðja erlenda leikmanninn í dag – Hefur verið hjá Ajax og fleiri liðum
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Thomas Frank búin að velja nýjan fyrirliða Tottenham

Thomas Frank búin að velja nýjan fyrirliða Tottenham