fbpx
Sunnudagur 03.ágúst 2025
Fréttir

Þarf samþykki ríkisins fyrir frekari bónusum til starfsmanna Íslandsbanka

Á næsta ári þarf stjórn bankans samþykki Bankasýslunnar til að greiða út bónusa – Yfir 700 milljónir í kaupauka 2014 og 2015 – Ný stjórn kjörin á aðalfundi í dag

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 19. apríl 2016 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslandsbanka verður ekki lengur heimilt að greiða bónusa til starfsmanna bankans nema að fengnu sérstöku samþykki hluthafa en bankinn er sem kunnugt er núna að fullu í eigu íslenska ríkisins. Á árunum 2014 og 2015 skuldbatt Íslandsbanki sig til að greiða um 100 starfsmönnum bankans samtals 736 milljónir í kaupauka.

Á aðalfundi Íslandsbanka sem fór fram í dag, hinum fyrsta eftir að ríkið eignaðist bankann fyrr á þessu ári, var samþykkt tillaga um að „stjórn bankans skal ekki gera eða heimila samninga um árangurstengdar greiðslur sem gilda um rekstur bankans eftir 31.12.2016, nema að fengnu samþykki hluthafa bankans og þá á þeim skilmálum sem hluthafar samþykkja á hluthafafundi.“

Arion banki ekki í faðmi ríkisins

Engar bónusgreiðslur verða því inntar af hendi til starfsmanna Íslandsbanka frá og með næsta ári nema að Bankasýsla ríkisins, sem heldur utan um 100% hlut ríkisins í bankanum, hafi veitt samþykki sitt fyrir slíkum greiðslum. Frá árinu 2013 hafa bæði Íslandsbanki og Arion banki greitt bónusa til tiltekins hóps starfsmanna á grundvelli reglna sem Fjármálaeftirlitið hefur sett um kaupakerfi fjármálafyrirtækja. Engar slíkar bónusgreiðslur hafa hins vegar verið greiddar hjá Landsbankanum en íslenska ríkið fer með 98% hlut í bankanum. Eftir að kröfuhafar Glitnis samþykktu í lok síðasta árs að framselja 95% hlut slitabúsins í Íslandsbanka sem hluta af stöðugleikaframlagi þeirra til íslenskra stjórnvalda er Arion banki núna eini viðskiptabankinn sem er ekki í meirihlutaeigu ríkisins.

Birna Einarsdóttir
Bankastjóri Íslandsbanka Birna Einarsdóttir

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Íslandsbanka verður aftur á móti heimilt að borga bónusa til starfsmanna fyrir núverandi rekstrarár án samþykkis hluthafa enda hafði stjórn bankans þegar samþykkt slíkar greiðslur á aðalfundi árið 2015 og hafa verið gerðir samningar á grundvelli þeirrar ákvörðunar.

Launalækkun í pípunum

Á síðasta ári skuldbatt Íslandsbanki sig til að greiða samtals 378 milljónir króna vegna bónusgreiðslna til starfsmanna fyrirtækisins og dótturfélaga þess. Birnu Einarsdóttur bankastjóra var þar af lofað 7,2 milljónum króna, sem bættust ofan á 44 milljóna árslaun hennar, og átta framkvæmdastjórum bankans, alls 29 milljónum. Samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins um kaupaukagreiðslur fjármálafyrirtækja skal útborgun á 40% af áunnum greiðslum frestað um þrjú ár og þá mega bónusar ekki nema hærri fjárhæð en 25% af árslaunum starfsmanna.

Auk þess að girt verður fyrir frekari bónusgreiðslur til lykilstarfsmanna Íslandsbanka, nema sem fyrr segir að fengnu sérstöku samþykki Bankasýslunnar, þá eru jafnframt allar líkur á því að laun Birnu Einarsdóttur muni lækka umtalsvert nú þegar bankinn er kominn í ríkiseigu. Á meðan eignarhaldið á bankanum helst óbreytt verða laun bankastjórans því ákvörðuð af kjararáði og gætu lækkað um meira en helming en á síðasta ári námu laun Birnu um 3,76 milljónum króna á mánuði. Til samanburðar voru mánaðarlaun Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans, ríflega 1,6 milljónir króna en laun hans eru ákvörðuð af kjararáði.

Tíu milljarða arðgreiðsla

Á aðalfundi Íslandsbanka í dag var kjörin ný stjórn þar sem inn koma fimm nýir stjórnarmenn. Þeir eru Anna Þórðardóttir, endurskoðandi, Auður Finnbogadóttir, formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins, Árni Stefánsson, verkfræðingur hjá Rio Tinto Alcan, Hallgrímur Snorrason, fyrrverandi hagstofustjóri, og Heiðrún Jónsdóttir, lögfræðingur.

Friðrik Sophusson
Stjórnarformaður frá 2010 Friðrik Sophusson

Mynd: Íslandsbanki

Friðrik Sophusson og Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, eru þau einu, sem kjörin voru í stjórn á aðalfundi síðasta árs, sem munu sitja áfram í stjórninni. Var Friðrik kjörin formaður stjórnar en hann hefur gegnt því starfi frá árinu 2010.

Marianne Økland, Eva Cederbalk, Neil Graeme Brown, Gunnar Fjalar Helgason og Árni Tómasson hætta hins vegar í aðalstjórn bankans og Jón Eiríksson og Margrét Kristmannsdóttir hætta í varastjórn bankans.

Þá var samþykkt á fundinum að allt að 50% af hagnaði Íslandsbanka síðasta árs yrði greiddur í arð til hluthafa, eða sem nemur ríflega 10 milljörðum króna. Stjórn bankans var einnig fengin heimild til að kalla til sérstaks hluthafafundar síðar á árinu þar sem tillaga um greiðslu arðs af hagnaði fyrri rekstrarára kann að vera lögð fram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Tókust á við áskoranir þegar versta veðrið gekk yfir Vestmannaeyjar í nótt – Hætt við brennuna af öryggisástæðum

Tókust á við áskoranir þegar versta veðrið gekk yfir Vestmannaeyjar í nótt – Hætt við brennuna af öryggisástæðum
Fréttir
Í gær

Höfðu bókstaflega hendur í hári morðingja – Handtekinn í klippingu fyrir hrottafengin morð sem vöktu þjóðarathygli

Höfðu bókstaflega hendur í hári morðingja – Handtekinn í klippingu fyrir hrottafengin morð sem vöktu þjóðarathygli
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Karlmaður og kona sakfelld: Fengu 6,3 milljónir inn á reikning fyrir mistök og skiluðu ekki fénu

Karlmaður og kona sakfelld: Fengu 6,3 milljónir inn á reikning fyrir mistök og skiluðu ekki fénu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Eru Bandaríkin að missa þolinmæðina gagnvart Ísrael?

Eru Bandaríkin að missa þolinmæðina gagnvart Ísrael?