
Allt stefnir í viðburðaríkt sumar á knattspyrnustjóramarkaðnum þar sem HM, samningslok og óvissa hjá stórum félögum gætu leitt til mikilla breytinga. BBC fjallar um málið og tekur nokkur nöfn fyrir.
Crystal Palace þarf að finna nýjan stjóra eftir að Oliver Glasner staðfesti að hann yfirgefi félagið í lok tímabils. Þá er Michael Carrick aðeins tímabundinn knattspyrnustjóri hjá Manchester United til loka tímabils.
BBC segir enduruppbyggingu framundan víða. Meðal þeirra sem gætu hreyft sig eru Marco Silva hjá Fulham og Andoni Iraola hjá Bournemouth, auk þess sem Thomas Tuchel gæti hætt með England eftir HM.
Mauricio Pochettino er aðeins samningsbundinn bandaríska landsliðinu út mótið og það sama má segja um goðsögnina Didier Deschamps hjá franska landsliðinu.
Stór nöfn eru nú þegar án starfs, menn eins og Gareth Southgate, Xabi Alonso, Zinedine Zidane, Enzo Maresca, Ange Postecoglou og Joachim Löw.
BBC segir allt benda til þess að sumarið verði eitt það áhugaverðasta í stjóramálum um árabil.