

Trump segir að yfirvöld í Kólumbíu, sem á landamæri að Venesúela, þurfi að gæta sín og að landinu sé stjórnað af „sjúkum manni“. Trump lét þessi ummæli falla á ferðalagi með Air Force One í gærkvöldi.
Trump virðist ekki vera neinn aðdáandi Gustavo Petro, forseta Kólumbíu, og sagði hann hefði „gaman af því að framleiða kókaín“. Ummæli Trumps féllu eftir að Petro lýsti árás Bandaríkjanna á Venesúela sem árás á fullveldi Rómönsku Ameríku.
„Kólumbía er líka mjög veik, stjórnað af sjúkum manni sem hefur gaman af því að framleiða kókaín og selja það til Bandaríkjanna, og hann mun ekki gera það lengi,“ sagði Trump.
Ekki stóð á svörunum þegar hann var spurður hvort til greina kæmi að ráðist yrði í hernaðaraðgerðir gegn Kólumbíu: „Það hljómar vel fyrir mér.“
Óvíst er hvað tekur við í Venesúela eftir handtöku Maduro en Delcy Rodríguez, starfandi forseti landsins, kallaði eftir friði og viðræðum um lausn mála.
„Við setjum í forgang að stefna að jafnvægi og gagnkvæmri virðingu í alþjóðasamskiptum milli Bandaríkjanna og Venesúela,“ sagði Rodríguez. „Donald Trump forseti, þjóðir okkar og svæði okkar eiga skilið frið og samræður, ekki stríð. Þetta hefur alltaf verið boðskapur Nicolás Maduro forseta, og þetta er boðskapur allrar Venesúela núna.“