

Brynjar Níelsson, samfélagsrýnir og spaugari með meiru, segir frá að honum hafi borist undarleg sending inn um lúguna heima hjá sér. Stórt brúnt umslag sem reyndist halda völvuspá fyrir Brynjar fyrir nýja árið, ásamt fleiri skemmtilegum atriðum þar sem meðal annars DV ber á góma.
„Gleðilegt nýtt ár, kæru fésbókarvinir. Þegar ég vaknaði í morgun lá í forstofunni stórt brúnt umslag. Ég hef ekki fengið svona þykkt umslag síðan Steini kynjafræðingur laumaði inn um lúguna hjá mér skemmti-og fræðiritinu um 3ju vaktina með handrituðum athugasemdum á spássíum sem mátti skilja svo að ég væri litlu skárri en Ester Harðardóttir starfsmaður á skrifstofu Bónus.“
Segir Brynjar að í umslaginu hafi verið 30 síðna völvuspá fyrir árið 2026. Ástæðan fyrir heimsendingunni sennilega sú að þar reyndist vera stuttur kafli um framtíð Brynjars. „Ég hef ekki verið mikill aðdáandi völva en ég er ekki frá því að þessi gæti reynst sannspá. Því tel ég rétt að deila með ykkur því helsta úr þessari völvuspá.“
„Hvað mig varðar spáir völvan því að ég verði atvinnulaus í upphafi ársins, sem hefur þegar reynst rétt. Eftir ítrekaðar hvíldarinnlagnir fyrri hluta ársins sem skili litlu mun Soffía loks gefast upp og skilja við mig. Ég muni þó finna ástina að nýju strax um haustið og taki saman við Önnu Kristjáns, sem mun vera gamall vélstjóri og búi á Tene nú um stundir. Þá spáir völvan því að Inga Sæland leiti til mín um að leiða lista Flokks fólksins í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum en hætti við eftir mikil mótmæli gegn því á Austurvelli.“
Völvuspáin á þó ekki bara við um Brynjar sjálfan:
„Spáir völvan því að einhver Eiríkur Rögnvaldsson verði kosinn skemmtilegasti maður ársins. Ég þekki þann mann ekki en völvan segir að hann heiti í raun Láki og hafi átt erfiða æsku. Það hafi verið honum til happs að fá vistun á skólalóðinni á Melunum í marga áratugi.“
Eiríkur er fyrir þá sem ekki vita að eigin sögn uppgjafaprófessor, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands og skrifar hann daglega pistla um íslenskt málfar í Facebookhópi sínum Málspjall.
Við fögnum svo næstu spá þó engin slík verðlaun séu eða hafa verið til staðar: „Völvan spáir því að DV verði kosinn fjölmiðill ársins fyrir að sinna því hlutverki fjölmiðla best í að veita stjórnvöldum aðhald, eftir harða baráttu við RÚV. Jafnframt verði vinur minn, Ólafur Arnarson, kosinn blaðamaður ársins og fær aukaverðlaun fyrir baráttu hans gegn hatursorðræðu og langrækni.
Þá muni Kristrún Frosta stilla upp sterkum lista í komandi sveitarstjórnarkosningum, sem verður eingöngu skipaður gömlum knattspyrnumönnum og konum. Gísli Marteinn kemst því ekki á listann en verður sjúkraþjálfari og klappstýra og fær laun frá skattgreiðendum fyrir þau störf.“
Brynjar segir völvuna spá fleira en hann láti þetta duga í bili.