
Brotist var inn á heimili fjölskyldu við götuna Hofgarða á Seltjarnarnesi um kl. 2 á aðfaranótt mánudags. Gluggi á húsinu var brotinn upp, innbrotsþjófarnir fóru inn og höfðu með sér töluverð verðmæti.
Lögregla koma á vettvang í gærmorgun og er málið í rannsókn en á þessari stundu er ekki vitað hverjir voru að verki.
„Okkur þykir sárast að missa skartgripi og fleira sem hefur mikið tilfinningalegt gildi. Við viljum fyrst og fremst fá dótið okkar til baka og munum ekki leggja fram kæru ef ölu er skilað heilu,“ segir húsmóðirin á heimilinu í færslu um málið í Facebook-hópi.
Hún segir í samtali við DV að fjölskyldan hafi verið erlendis þegar innbrotið átti sér stað og allt bendi til þess að innbrotsþjófarnir hafi vitað af því. Hún segir að samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafi ekki verið fleiri innbrot í næsta nágrenni að undanförnu en hins vegar var innbrot í íbúð í Vesturbænum á þriðjudagsnótt.
Þeir sem kunna að hafa upplýsingar um málið eða búa jafnvel yfir myndefni af atvikinu á öryggismyndavélum eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í gegnum netfangið 244@lrh.is.
DV var síðast í sambandi við húsráðanda á fjórða tímanum í dag og var þá enn ekkert nýtt að frétta af rannsókn lögreglu.