

Vél EasyJet frá Manchester sem átti að lenda á Keflavíkurflugvelli á sunnudag var skyndilega snúið við rétt fyrir lendingu. Aðstæðurnar voru einfaldlega of slæmar og vélinni því snúið við til Bretlands á ný.
Vélin lagði af stað um fjögur leytið síðdegis á sunnudag frá Manchester flugvelli. Hún átti að lenda um hálf sjö en þegar til Íslands var komið voru aðstæður slæmar til lendingar. Það er vegna slæms skyggnis.
Að sögn flugfélagsins var ekki útlit fyrir að aðstæðurnar myndu breytast og var því loks ákveðið að snúa aftur til Bretlands. Lenti vélin á flugvellinum í Edinborg á sunnudagskvöld.
„Við gerðum allt sem í okkar valdi stóð til að lágmarka áhrifin fyrir farþega okkar og útveguðum þeim hótelgistingu og máltíðir. Þó að aðstæðurnar væru utan okkar stjórnar biðjumst við afsökunar á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið vegna veðursins,“ segir í tilkynningu EasyJet. Var nýtt flug skipulagt á mánudag, 29. desember.
