
Trump Bandaríkjaforseti og Zelensky Úkraínuforseti hafa lýst því yfir að fundur þeirra í Florida hafi verið árangursríkur. Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, hefur þó efasemdir um árangur fundarins og er ekki ýkja bjartsýnn á friðarsamninga milli Rússa og Úkraínumanna. Telur hann að stríðinu ljúki með öðrum hætti.
„Donald Trump forseti Bandaríkjanna, og Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, töluðu um að fundur þeirra í Florida hafi skilað miklum árangri. Sérstaklega virtist Trump vera ánægður með fundinn. Þó hefur svona fundur að mínu mati takmarkað gildi þar sem Rússland var ekki beinn aðili að þessum viðræðum þó Trump hafi átt yfir tveggja tíma samtal við Vladímír Pútín í síma. Það verður ekkert samkomulag nema bæði yfirvöld í Úkraínu og Rússlandi taki þátt í viðræðunum. Donald Trump reynir nú að ná öllum aðilum saman,“ segir Hilmar og vekur athygli á því að Trump hefði farið lofsamlegum orðum um bæði Zelensky og Pútín Rússlandsforseta.
Hilmar segir að það séu alltaf sömu tvö ágreiningsatriðin sem standi upp úr. Annars vegar yfirráð yfir Donbass-héraði og hins vegar svokallaðar öryggistryggingar. „Án efa eru fleiri ágreiningsmál en þessi eru bæði óleyst eins og kom fram á blaðamannafundi Trump og Zelensky. Donbass er auðlindaríkt hérað og það verður erfitt fyrir yfirvöld í Úkraínu að láta það allt af hendi. Rússnesk yfirvöld hafa látið í það skína að ef Rússland fái ekki allt héraðið í samningum muni það verða tekið með áframhaldandi hernaði.“
„Varðandi öryggistrygginguna virðist NATO aðild Úkraínu ekki lengur á dagskrá og að mínu mati var hún alltaf óraunhæf þar sem aldrei var samstaða meðal NATO ríkja um það mál. Rússland gat aldrei stoppað af NATO aðild Úkraínu frekar en aðild Finnlands og Svíþjóðar, hefði verið samstaða meðal NATO ríkja. Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, hefur verið í sambandi við aðra leiðtoga í Evrópu um að mynda „bandalag hinna viljugu“ sem gætu annast friðargæslu í Úkraínu. Þetta myndi þýða friðargæsluliða frá NATO ríkjum í Úkraínu sem frá sjónarhorni Rússlands kemur ekki til greina. Ég held að rússnesk yfirvöld myndu alltaf líta á friðargæsluliða frá NATO ríkjum sem NATO hermenn.“
Hilmar telur líklegt að stríðinu ljúki án friðarsamninga, sem „frosin“ átök, enda verði erfitt að finna lausn á helstu ágreiningsefnunum.
„Ég held að erfitt verði að finna lausn á ágreiningi um Donbass og líka um öryggistryggingu fyrir Úkraínu. Það eru líka fleiri ágreiningsmál, t.d. um stríðsskaðabætur frá Rússlandi til Úkraínu. Ég held að enn sé langt í land varðandi friðarsamning milli Úkraínu og Rússlands. Mér finnst líklegast að þetta stríð endi í „frozen conflict“ þar sem á einhverju stigi deyi þetta stríð út án formlegs friðarsamnings. Vesturlönd myndu ekki viðurkenna ný landamæri frekar en yfirvöld í Úkraínu. Þetta gæti orðið svipað og landamærin milli Norður- og Suður-Kóreu.“
Hilmar segir að áður hafi verið talað um árangursríka samningafundi í deilunni en síðan komi sömu ágreiningsmálin alltaf upp aftur. „Ég held það hafi verið jákvætt að halda fundinn í Florida en ég hef miklar efasemdir um skjótan árangur sem gæti leitt til friðarsamnings milli Úkraínu og Rússlands.“