

Björn Snæbjörnsson, formaður Landssambands eldri borgara, segir ofbeldi oft dulið gagnvart eldri borgurum. Oft er þetta fjárhagslegt ofbeldi og vanræksla sem á sér stað innan fjölskyldu og ekki er tilkynnt.
Þetta kemur fram í grein Björns á Vísi þar sem hann fer yfir stöðu eldri borgara í árslok 2025 og þær áskoranir sem þeir standa frammi fyrir. Meðal annars fátækt, ójafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, félagslega einangrun og aldursfordómar í samfélaginu.
Þá nefnir hann einnig sérstaklega ofbeldi gagnvart eldri borgurum, sem er oft dulið og erfitt að takast á við.
„Ofbeldi gegn eldri borgurum er alvarlegt, dulið og því miður vanrækt samfélagsvandamál. Ofbeldi getur birst með ýmsum hætti, svo sem líkamlegu, andlegu eða kynferðislegu ofbeldi, fjárhagslegri misnotkun eða vanrækslu,“ segir Björn í greininni. „Í mörgum tilfellum á ofbeldið sér stað innan fjölskyldu eða í nánum tengslum, sem gerir það erfiðara fyrir þolendur að leita sér hjálpar.“
Hann segir að eldri borgarar séu oft í viðkvæmri stöðu vegna heilsuleysis, fjárhagslegs ósjálfstæðis eða félagslegrar einangrunar.
„Ótti við afleiðingar, skömm eða traust á gerandanum getur orðið til þess að ofbeldi er ekki tilkynnt. Því er talið að raunverulegt umfang vandans sé mun meira en opinberar tölur gefa til kynna,“ segir hann.
Vegna þessa telur Björn mikilvægt að efla fræðslu og vitundarvakningu um ofbeldi gagnvart eldra fólki, bæði á meðal fagfólks og almennings. Sem og að búa til skýrar verklagsreglur, aðgengileg úrræði og öflugt samstarf heilbrigðis-, félags- og réttarkerfis í þessari baráttu.
„Eldri borgarar þurfa að vita hvert þeir geta leitað og að þeim verði mætt af virðingu og trúnaði,“ segir hann.