

Kristoffer Sassung er sænskur öryggissérfræðingur, sérhæfður í skipulagðri brotastarfsemi. Hann birtir grein í Morgunblaðinu í dag þar sem segir að skipulögð brotastarfsemi sé ekki lengur jaðarvandamál í Svíþjóð heldur ógn við undirstöður samfélagsins. „Sem fyrrverandi lögreglumaður með áratugareynslu af baráttunni gegn sænskri gengjastarfsemi hef ég séð með eigin augum hvernig hóparnir hafa smám saman byggt upp völd, þróað aðferðir og fest rætur í umhverfi þar sem ógnin var lengi vanmetin af bæði yfirvöldum og samfélagsstofnunum,“ segir Sassung.
Hann segir stöðuna á Íslandi vera þannig að skipulögð brotastarfsemi sé enn ekki ógn við kerfið. Þess vegna sé enn svigrúm til að bregðast við. Reynslan frá Svíþjóð sýni að á þessu stigi skipti forvarnir mestu máli, áður en glæpahópar nái fótfestu. Hann segir að uppbygging glæpasamtaka fari fram í kyrrþey án áberandi ofbeldis. Hann lýsir því með eftirfarandi hætti hvernig glæpasamtök ná ítökum í samfélaginu:
„Endurtekið mynstur er að glæpasamtök koma sér sjaldan fyrir með augljósu ofbeldi á fyrstu stigum. Í staðinn fer uppbyggingin fram í kyrrþey – í gegnum fjármálalegt fyrirkomulag, aukið flæði fíkniefna, svikastarfsemi og óformleg tengsl við einstaklinga í lykilstöðum. Lágt ofbeldisstig þýðir því ekki að ógnin fyrirfinnist ekki; þvert á móti getur það verið vísbending um að undirliggjandi skipulag sé að taka á sig mynd.
Sérstaklega alvarleg er sú ólögmæta áhrifastarfsemi sem beinist að burðarstoðum samfélagsins. Duldar hótanir, þrýstingur, orðrómur og meðferð upplýsinga er oft erfið viðureignar og erfitt að greina, en geta haft veruleg áhrif, einkum í litlum og nátengdum samfélögum. Slík áhrif leiða sjaldan til opinna átaka, heldur til sjálfsritskoðunar, þöggunar og varfærni – sem veikir mótstöðugetu samfélagsins til lengri tíma.
Samhliða þessu sækjast glæpasamtök eftir áhrifum í atvinnulífi og staðbundnum kerfum þar sem eftirlit er takmarkað og tengsl persónubundin. Opinber innkaup, tilteknar atvinnugreinar og staðbundin tengslanet þar sem félagslegt traust er mikið geta verið nýtt til innrásar, peningaþvættis og svikastarfsemi. Í dag þarf gerandi ekki einu sinni að vera staddur í sama landi og brotaþoli – efnahagsbrot, svik og ólögmæt áhrifastarfsemi fara oft fram stafrænt og yfir landamæri, sem gerir þau mun erfiðari í uppgötvun, rannsókn og saksókn.“
Sassung segir að ungt fólk sé mikilvægasti markhópurinn fyrir nýliðun og það sé ráðið í gegnum netið, samfélagsmiðla, leikjapalla og spjallrásir. Mikilvægt sé að grípa þar snemma inn í.
Hann segir að á Íslandi sé skipulögð glæpastarfsemi ekki enn orðin kerfisógn. Bregðast þurfi við slíkri þróun með því að taka ólögmæta svikastarfsemi alvarlega, styrkja efnahagslegt eftirlit og gagnsæi varðandi opinber innkaup, vernda ungt fólk gegn stafrænni nýliðun, styrkja samhæfingu milli lögreglu og annarra yfirvalda og tryggja formleg ferli í smáum kerfum þannig að ávallt séu til staðar skýrar verklagsreglur og ábyrgð.
Sassung segir í lok greinar sinnar: „Svíþjóð brást of seint við. Ísland hefur enn tækifæri til að bregðast við í tæka tíð.“