
Sigurður Egill Láruson getur enn gengið í raðir Íslandsmeistara Víkings á fyrri hluta næsta árs, þrátt fyrir að hafa skrifað undir hjá Þrótti R. rétt fyrir jól.
Sigurður gekk í raðir Lengjudeildarliðs Þróttar á dögunum en áhugavert ákvæði er í samningnum, eftir því sem fram kemur hjá Jóhanni Má Helgasyni í hlaðvarpinu Dr. Football.
Samkvæmt því má Sigurður ganga í raðir Víkings fyrir 15. mars, sækist félagið eftir því að fá hann. Ku það velta á hvort aðrir leikmenn fari, þar sem Víkingar eru sem stendur vel mannaðir.
Sigurður er uppalinn hjá Víkingi en gerði hann garðinn frægan með Val og raðaði inn titlum. Samningur hans á Hlíðarenda var ekki endurnýjaður í haust.