
Jessica Poteet er kona frá Missouri í Bandaríkjunum, sem hefur búið undanfarin sjö ár á Íslandi. Í gærkvöld, rétt fyrr miðnætti, varð hún fyrir alvarlegri líkamsárás skammt frá heimili sínu í Laugarneshverfi.
Hún var á kvöldgöngu er hún varð vör við karlmann að kíkja inn í bíla á Kirkjustandi, nálægt Laugarnesvegi. Þegar hún kom nær honum var hann að líta inn um bakglugga að íbúðum á horninu við Hallgerðargötu. Þegar hann varð Jessicu var hljóp maðurinn beint að henni, kýldi hana með krepptum hnefa á nefið, hrinti henni á grindverk og hljóp í burtu. Hún hringdi strax í 112.
Jessica skrifar um málið í íbúahópi Laugarnesbúa á Facebook og veitti DV góðfúslega leyfi til að greina frá færslunni. Hún segir að lögregla hafi handtekið manninn skömmu eftir árásina og var hann þá að sniglast í kringum íbúðir á Laugaranesvegi að Kleppsvegi. Segir hún að svo virðist sem að lögregla hafi þegar haft hverfið undir eftirliti.
Jessica segir í færslu sinni:
„Ég vildi deila þessum upplýsingum til að segja: Vinsamlega, verið varkár þarna úti. Þetta er var mjög óhugnanlegt atvik. En ég vil líka bæta því við að það voru margir á ferli í nágrenninu þó að það væri svona seint, og var ég var grátandi, alein, blæðandi kona, en enginn stoppaði. Ég vona að við getum verið tillitssamari og umhyggjusamari til náungans á nýju ári.“
Jessica segir aðspurð í samtali við DV að undanfarnar vikur hafi borist margar tilkynningar í hverfinu um innbrot í bíla og íbúðir. Hún viti hins vegar ekki um önnur dæmi um líkamsárás eins og þá sem hún varð fyrir.
„Ég hefði ekki einu sinni álitið þennan mann vera grunsamlegan ef hann hefði ekki hlaupið í áttina til mín,“ segir hún.
„En ég er að ná mér eftir sjúkdóm svo þessi maður kýldi veika konu í andlitið.“
Hún segir að tönn hafi losnað í árásinni, nefið hafi bólgnað og hún hafi fengið glóðarauga. Andlegu áhrifin eru harkaleg. Hún segist enn vera í sjokki eftir árásina, ekki síst vegna þess hún átti sér stað bara örfáum metrum frá heimili hennar.
Hún vill hins vegar koma á framfæri þökkum til lögreglunnar fyrir snör viðbrögð í hennar máli. „Ég er mjög þakklát lögreglunni,“ segir Jessica.