

Bandaríski herinn gerði loftárásir á fjölmörg skotmörk meintra ISIS-liða í Nígeríu á jóladag. Þetta tilkynnti Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, í færslu á samfélagsmiðli sínum Truth Social.
„Í nótt, samkvæmt skipun minni sem æðsti yfirmaður hersins, framkvæmdu Bandaríkin kraftmikla og banvæna árás gegn ISIS hryðjuverkaógeðum í norðvestur Nígeríu, sem hafa verið að gera árásir á og drepa saklausa kristna einstaklinga af meira krafti en við höfum séð í mörg ár, jafnvel aldir,“ sagði Trump með sínum hefðbunda stíl í áðurnefndri færslu.
Undanfari árásanna var fyrirskipun Trump í Nóvember síðastliðnum um að Bandaríkin myndu hefja undirbúning aðgerða í Nígeríu gegn ISIS-liðum. Voru árásirnar gerðar í samvinnu við yfirvöld í Nígeríu og þakkaði Pete Hegseth, varnarmálaráðherra, þarlendum yfirvöldum sérstaklega fyrir samvinnuna í færslu á samfélagsmiðlinum X sem lauk með eftirfarandi kveðju:
„Gleðileg jól!“
Nígería skiptist í grófum dráttum jafnt milli kristinna og múslima en mannréttindasamtök hafa fullyrt að engar beinar sannanir séu fyrir hendi um að kristnir séu sérstaklega að falla í valinn frekar en múslimar þó sannarlega ríki óöld á ákveðnum svæðum í landinu.
Það hefur þó ekki stöðvað fullyrðingaflaum Trump um að þúsundir kristinna einstaklinga hafi verið drepnir með skipulögðum hætti í landinu.