

Íslenskur karlmaður situr nú í varðhaldi í Medellín í Kólumbíu grunaður um kynferðisbrot gegn unglingsstúlku. Vísir greinir fyrst frá málinu en fjölmiðlar í Kólumbíu hafa nafngreint manninn og þar kemur fram að hann heiti Högni Kjartan Þorkelsson og sé ferðamaður frá Íslandi.
Högna er gert að sök að hafa boðið stúlkunni greiðslu fyrir kynlíf en í framhaldinu brotið gegn henni án hennar samþykkis aðfaranótt 6. desember.
Stúlkunni tókst að flýja og hafði samband við lögreglu. Miðillinn Semana greinir frá því að Medellín hafi tekið á móti rúmlega hálfri milljón ferðamanna á fyrstu sex mánuðum ársins. Töluvert er um að ferðamenn komi gagngert til borgarinnar til að brjóta kynferðislega gegn ólögráða börnum og hafa yfirvöld ráðist í herferð til að berjast gegn þessu.
Högna er nú haldið í varðhaldi í fangelsi sem er annálað fyrir ómannúðlegar aðstæður. Fangelsið er yfirfullt svo fangar þurfa að sofa á gólfinu, jafnvel á pappakössum. Högni er sagður neita sök í málinu.