fbpx
Þriðjudagur 23.desember 2025
Fréttir

Svanhildur Sif heiðruð af Kópavogsbæ – „Börnin eiga svo stóran hlut í hjarta mínu“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 23. desember 2025 12:12

Sigrún Þórarinsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Dagbjört Rún Guðmundsdóttir, skrifstofustjóri barnaverndarþjónustu, Svanhildur Sif Haraldsdóttir og Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svanhildur Sif Haraldsdóttir var í dag heiðruð fyrir óeigingjarnt  og ómetanlegt framlag í þágu barna og fjölskyldna í Kópavogsbæ. Svanhildur hefur undanfarin 25 ár tileinkað líf sitt því að vera til staðar fyrir börn í vanda. Hún hefur undanfarin 10 ár rekið vistheimili fyrir barnaverndarþjónustu Kópavogs á heimili sínu. Þar geta börn dvalið hjá henni í lengri og skemmri tíma á meðan unnið er að bættum aðstæðum á heimili þeirra en Svanhildur er einstaklega hlý og gefandi.

„Það hefur verið dýrmætt að njóta starfskrafta Svanhildar sem hefur lagt sig fram síðustu áratugina og opnað hjarta sitt og heimili fyrir börnum í viðkvæmri stöðu sem hafa þurft á skjóli að halda. Svanhildur fer á eftirlaun á nýju ári og óskum við hjá Kópavogsbæ henni velfarnaðar við þau tímamót,“ sagði Ásdís Kristjánsdóttir við tækifærið.

„Börnin eiga svo stóran hlut í hjarta mínu, ekki aðeins þegar þau dvelja hjá mér heldur um alla tíð,“ sagði Svanhildur við tilefnið.

Svanhildur er félagsráðgjafi að mennt. Hún stofnaði sumarbúðirnar Ævintýraland árið 1998 og rak þær til ársins 2012.

Svanhildur hefur starfað fyrir barnaverndarþjónustu með einum eða öðrum hætti frá árinu 2001 en það ár gerðist hún persónulegur ráðgjafi og stuðningsfjölskylda tveggja barna. Annað þeirra fór að endingu í varanlegt fóstur hjá Svanhildi.

Árin 2002- 2005 sinnti Svanhildur ýmsum störfum fyrir Velferðarsvið Kópavogs, starfaði hún m.a sem tilsjónaraðili, persónulegur ráðgjafi og liðveisla.

Árið 2005 opnaði Svanhildur heimili sitt og tók að sér að reka vistheimili fyrir barnaverndarþjónustu Kópavogs. Sinnti hún því hlutverki til ársins 2008. Á þeim tíma starfaði hún einnig sem tilsjónaraðili fyrir foreldra sem voru í þörf fyrir uppeldislegan stuðning. Gengum árin hefur Svanhildur einnig tekið að sér börn í fóstur til lengri og skemmri tíma auk þess sem hún hefur verið stuðningsfjölskylda fyrir börn.

Árið 2015 tók Svanhildur að sér rekstur vistheimilisins að nýju á heimili sínu og hefur rekið það samfellt fyrir barnaverndarþjónustu Kópavogs síðastliðin 10 ár.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt