

Íslenskur faðir á fimmtugsaldri sem lenti í alvarlegu bílslysi í Suður-Afríku á miðvikudag í síðustu viku liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi þar. 13 ára dóttir mannsins og móðir hans létust í slysinu. Fjölskyldan var komin til landsins til að verja jólunum með syni mannsins sem er í meðferð á meðferðarheimilinu Healing Wings.
Mbl ræddi við vin mannsins í gær sem segir hann hafa komist til meðvitundar um helgina, læknar hafi tekið þá ákvörðun að svæfa hann aftur svo hann kæmist í ákveðið jafnvægi fyrir aðgerð. Vinurinn segir ærið verkefni fram undan hjá föðurnum.
„Hann er bara í öndunarvél þarna úti og hans bíður aðgerð á hjarta eða á ósæð,“ segir Björn Rúnar Guðmundsson. Hann segir ósæðina hjá föðurnum leka og að framundan sé aðgerð og síðan löng og stíf meðferð.
„Hann kemur að öllum líkindum ekki heim næstu mánuði. Þannig að hans bíður alveg ærið verkefni þarna úti, að komast í lag og fást við allt þetta áfall sem bíður hans. Hvað gerðist og geta svo líka mætt syni sínum, sem gengur rosalega vel í þessari meðferð.“
Söfnun hefur verið komið af stað fyrir Maríu Ericsdóttur, móður barnanna, sem fór til Suður-Afríku í kjölfar slyssins til að vera syni sínum til halds og traust og til að sækja látna dóttur sína.
Sjá einnig: Söfnun fyrir Maríu og fjölskyldu hennar
„Mér finnst þetta eiga að snúa fyrst og fremst að því að koma stelpunni og ömmunni heim. Svo þurfa náttúrulega einhverjir að fara út reglulega í kringum þetta mál, bæði mál vinar míns og sonar hans, næstu vikur og mánuði og þetta eru dýr ferðalög. Svo er náttúrulega jarðarförin líka,“ segir Björn við Mbl. Hann börnin hafa verið vini sínum allt og allt kapp lagt á að tryggja syninum meðferðina sem er mjög kostnaðarsöm.
Björn biður samfélagið að hugsa hlýtt til vinar síns þegar hann tekst á við þennan harmleik.
„Þetta er fyrst og fremst fjölskylduharmleikur sem snertir rosalega marga og við biðjum um samheldni í fjölskyldunni til að eiga við þetta.“
Nánar má lesa viðtalið við Björn hér.