

„Nú í morgunsárið er tiltölulega rólegur vindur á landinu og lítil úrkoma heilt yfir. Það á síðan að breytast, því síðdegis á að ganga í mikið og langvinnt sunnan hvassviðri, sem á að standa áfram á aðfangadag og enn nokkuð hvasst á jóladag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.
Þar segir að hvassasti kaflinn í þessu veðri verði væntanlega fyrri partinn á aðfangadag á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra, en búast má við stormi eða roki á þessum slóðum og geta hviðurnar farið yfir 40 metra á sekúndu.

Smelltu hér til að sjá þær veðurviðvaranir sem eru í gildi.
„Því hefur þessi kafli á þessum svæðum verið rammaður inn með appelsínugulri viðvörun. Þegar vindstyrkur er orðinn þetta mikill eru ekki bara lausir munir sem geta fokið, heldur geta byggingar á stöku stað skemmst, t.d. losnað þakplötur,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings. Gul viðvörun varir aðeins í skamma stund á höfuðborgarsvæðinu, eða frá klukkan 7 að morgni aðfangadags til klukkan 11.
Þá segir að þessu sunnanveðri fylgi talsverð eða mikil rigning á sunnan- og vestanverðu landinu frá því síðdegis í dag og allan aðfangadag. Af þeim sökum hafa gular viðvaranir vegna rigningar verið gefnar út. Útlit er fyrir minni úrkomu á jóladag, en einhver væta verður þó að sögn veðurfræðings.
„Sunnanáttin færir einnig mjög hlýjan (og rakan) loftmassa yfir landið, ættaðan langt sunnan úr höfum. Hiti getur náð sér vel á strik við þessar aðstæður í hnjúkaþey á Norður- og Austurlandi. Það kæmi ekki á óvart að sjá 17-18 stig á einhverri mælistöð í þessum landshlutum áður en veðrinu lýkur, t.d. á aðfangadagskvöld eða að morgni jóladags. Þess má geta að hæsti hiti sem mælst hefur í desembermánuði á Íslandi eru 19.7 stig á Kvískerjum 2. desember 2019. Þá var sunnanátt á landinu, ekki ósvipuð þeirri sem nú er í kortunum. Því er ekki hægt að útiloka þann möguleika að desemberhitametið fallin nú um jólin, því hnjúkaþeyrinn getur verið brellinn og brögðóttur.“
Á miðvikudag (aðfangadagur jóla):
Sunnan 20-28 m/s, hvassast í vindstrengjum á norðanverðu landinu, en 13-20 sunnanlands. Dregur heldur úr vindi seinnipartinn. Talsverð rigning um landið sunnan- og vestanvert, en þurrt norðaustantil. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast í hnjúkaþey á Norður- og Austurlandi.
Á fimmtudag (jóladagur):
Minnkandi sunnanátt, 13-20 síðdegis. Súld eða rigning með köflum, en yfirleitt þurrt á Norður- og Austurlandi. Áfram hlýtt í veðri. Hægari vestast á landinu um kvöldið og bætir í úrkomu.
Á föstudag (annar í jólum):
Suðvestan 8-13, en 13-18 á norðanverðu landinu fram á kvöld. Dálítil él eða slydduél, en styttir upp á austanverðu landinu. Hiti 0 til 5 stig.
Á laugardag:
Sunnanátt og dálítil væta sunnan- og vestanlands, annars þurrt. Hiti um eða undir frostmarki, en allt að 6 stigum á vestanverðu landinu.
Á sunnudag:
Fremur hæg suðvestlæg átt með stöku skúrum á Suður- og Vesturlandi, en bjart fyrir norðan og austan. Hiti breytist lítið.
Á mánudag:
Útlit fyrir suðvestlæga átt. Dálitlar skúrir og hiti 0 til 5 stig vestanlands en bjart og kalt fyrir austan.