fbpx
Þriðjudagur 23.desember 2025
Fréttir

Sneru vörn í sókn gegn leigubílstjóranum sem ofrukkaði þær og skildi svo eftir í myrkrinu á Bláfjallavegi

Ritstjórn DV
Mánudaginn 22. desember 2025 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tvær ástralskar ferðakonur sögðu farir sínar ekki sléttar í sumar eftir viðskipti sín við sómalskan leigubílstjóra hér á landi. Hann rukkaði konurnar um þrefalt hærra verð en þeim hafði upphaflega verið sagt að ferðin myndi kosna og á endanum skildi leigubílstjórinn þær eftir við Bláfjallaveg, seint að kvöldi í myrkri, þar sem ekkert blasti við þeim annað en hraun.

Konurnar ætluðu að fara í norðurljósaferð sem átti að hefjast við Bláfjallaveg. Þær hittu fyrir leigubílstjórann sem þóttist vinna fyrir Hreyfil. Hann gaf þeim upp áætlað verð fyrir ferðina frá miðborginni, 7 þúsund krónur.

Síðan ók hann þeim á skíðasvæðið í Bláfjöllum, sem var ekki rétti staðurinn. Þegar hann skilaði þeim á réttan stað höfðu þær misst af norðurljósaferðinni og við þeim blasti mannlaust hraunið. Leigubílstjórinn rukkaði þær svo um 27.400 krónur með ógnandi hætti, og skildi þær svo eftir. Þær urðu að hringja eftir öðrum leigubíl til að komast til baka og kostaði sú ferð 11 þúsund krónur.

Snýst um faglegar kröfur

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur nú gert leigubílstjóranum að endurgreiða konunum ferðina. Það var lögfræðingurinn Brynjólfur Sveinn Ívarsson sem gætti hagsmuna kvennanna. Hann fagnar málalokum í samtali við DV:

„Málið veltur á því hvaða faglegu kröfur má gera til leigubílstjóra. Eðlilega blandar nefndin sér ekki í ágreining málsaðila að öðru leyti.

Þá voru málsástæður umrædds leigubílstjóra fjarstæðukenndar. Þá einkum að hann hafi haldið því fram að skjólstæðingar mínir hafi verið sáttir við að missa af Norðurljósaferðinni sinni og vera skildir eftir úti í hrauni.

Faglegu kröfurnar sem um ræðir eru að leigubílstjórar gangi úr skugga um hvert þeir eigi að fara með farþegana sína.“

Konurnar fóru fram á endurgreiðslu fargjaldsins sem og bóta vegna ferðarinnar sem þær misstu af. Eins töldu þær sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þess að hluti dvalar þeirra hafi farið forgörðum, en um þriðjungur af einum degi tapaðist vegna atviksins.

Leigubílstjórinn bar því við að hafa fylgt leiðbeiningum Google Maps. Hann fór eftir þeim leiðbeiningum en þegar þau nálguðust Bláfallaveg var ljóst að leiðin væri röng. Þá hafði hann slegið inn nýjar leiðbeiningar í Google Maps og áfangastaðurinn þá verið í um 37 mínútna fjarlægð. Samkvæmt gjaldmæli hefði ferðin átt að kosta 30.250 krónur en hann veitti konunum afslátt og þær greiddu því 27 þúsund fyrir ferðina. Furðaði leigubílstjórinn sig á kvörtuninni og taldi samskipti hans og kvennanna hafa verið góð.

Fá tjón sitt bætt

Kærunefndin benti á að Bláfjallavegur er langur vegur sem nær frá Þjóðvegi 1 upp að skíðasvæðinu í Bláfjöllum og samkvæmt sumum kortum einnig þaðan og inn í Hafnarfjörð. Konurnar höfðu í samskiptum sínum við leigubílstjórann nefnt að þær væru á leið í Aurora Basecamp sem er vinsæll ferðamannastaður við Bláfjallaveg. Taldi nefndin að þetta hafi gefið leigubílstjóranum sérstakt tilefni til að kanna hvert ferðinni væri heitið. Almennt megi gera þá kröfu til atvinnubílstjóra að þeir leiti nánari upplýsinga um áfangastað þegar farþegar gefa upp óljósar upplýsingar til að ganga úr skugga um að farið sé með farþega á réttan áfangastað, en fylgi ekki einungis þeirri leið sem leiðsögutæki bendir til á einum tilteknum stað á veginum. Leigubílstjórinn vanrækti því skyldur sínar og þjónusta hans var því gölluð. Vanrækslan varð til þess að konurnar misstu af bókaðri ferð og þjónaði þjónusta leigubílstjórans því ekki tilgangi sínum. Þær fengu því endurgreitt fargjaldið þar sem gáleysi leigubílstjórans olli því að þær misstu af norðurljósaferðinni sem olli þeim tjóni og eins þurftu þær að taka annan leigubíl til baka sem einnig taldist tjón.

Leigubílstjórinn þarf því að greiða konunum 49.805 krónur.

Þegar málið kom upp í sumar lýsti Brynjólfur því að bæta þurfi réttarstöðu ferðamanna, en það sé ekki hlaupið að því fyrir þá að leita réttar síns í málum sem þessum sem virðist þó vera daglegt brauð. Það sé viðvarandi galli á íslensku réttarkerfi hversu erfitt er að eiga við smáar kröfur.

Sjá einnig:Leigubílstjóri skildi tvær konur eftir úti í hrauni í kolniðamyrkri – „Það er ekki hlaupið að því fyrir ferðamenn að leita réttar síns eftir svona“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Einar segir Færeyinga hafa beitt sér gegn hagsmunum Íslands – „Frændur en engir vinir”

Einar segir Færeyinga hafa beitt sér gegn hagsmunum Íslands – „Frændur en engir vinir”
Fréttir
Í gær

Hraunar yfir jólatónleika Emmsjé Gauta – „Dröslað á svið í færibandavinnu sem minnti á sláturhús“

Hraunar yfir jólatónleika Emmsjé Gauta – „Dröslað á svið í færibandavinnu sem minnti á sláturhús“
Fréttir
Í gær

Læknar höfðu verulegar áhyggjur af hjónunum í Súlunesi eftir ítrekuð blómkálseyru og ótrúverðugar skýringar en gátu ekkert gert

Læknar höfðu verulegar áhyggjur af hjónunum í Súlunesi eftir ítrekuð blómkálseyru og ótrúverðugar skýringar en gátu ekkert gert
Fréttir
Í gær

Gerði afdrifarík mistök áður en hann fór um borð í Norrænu

Gerði afdrifarík mistök áður en hann fór um borð í Norrænu