
Þann 19. desember var ung kona sýknuð, í Héraðsdómi Reykjavíkur, af ákæru um glæp sem hún átti að hafa framið fyrir meira en fimm árum, eða í október árið 2020.
Ákærða var 15 ára þegar atburðir málsins áttu sér stað en henni var gefið að sök að hafa stungið 16 ára dreng tvisvar í bakið með hnífi, með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð hægra megin yfir herðablaði ofanvert og skurð á baki ofanvert vinstra megin við miðlínu milli herðablaða, báðir skurðirnir voru 1 cm að lengd og 1,5 c m að dýpt. Brotaþoli krafðist fjögurra milljóna króna í miskabætur.
Rannsókn málsins dróst óheyrilega lengi hjá lögreglu og var ekki tekin skýrsla af vitnum fyrr en á árinu 2024. Áttu þá flest vitni erfitt með að muna atburðina skýrt.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir orðrétt:
„Þegar litið er til allra framburða í málinu fyrir dómi er það mat dómsins að enginn þeirra sé mjög trúverðugur um þau atvik sem ákært er vegna. Allir báru þeir þess merki að langt er liðið frá atvikum máls og að bæði ákærða og vitni myndu ekki vel eftir atvikum og væru eftir fremsta megni að reyna að geta í eyðurnar. Er það mat dómsins að gegn neitun ákærðu sé útilokað að byggja sakfellingu í málinu á framburðunum. Þá verður sakfelling ekki byggð á gögnum í málinu. Það er því niðurstaða dómsins að ákæruvaldið hafi ekki axlað sönnunarbyrði sína í málinu og að ekki sé komin fram lögfull sönnun um sekt ákærðu. Er hún því sýknuð af ákæru í málinu.“
Niðurstaðan var því sú að stúlkan var sýknuð og miskabótakröfu var vísað frá dómi.
Verjandi hinnar ákærðu var Snorri Sturluson.
Dóminn má lesa hér.