
Japanski framherjinn Kazuyoshi Miura ætlar sér ekki að leggja skóna á hilluna strax, þrátt fyrir að vera orðinn 58 ára gamall. Miura, sem er talinn elsti atvinnumaður heims í knattspyrnu, er á leiðinni í nýtt félag.
Samkvæmt The Japan Times mun Miura ganga til liðs við C-deildarlið Fukushima United á eins árs láni frá Atletico Suzuka, þar sem hann lék á síðasta tímabili. Félagaskiptin hafa ekki verið staðfest opinberlega, en má búast við því fljótlega.
Miura hóf atvinnumannaferil sinn árið 1986 með Santos í Brasilíu og hefur því spilað atvinnuknattspyrnu í tæpa fjóra áratugi. Hann sló í gegn með Verdy Kawasaki í Japan, þar sem hann skoraði 110 mörk, og var lykilmaður í japanska landsliðinu á tíunda áratugnum. Hann varð ásíski knattspyrnumaður ársins 1992 eftir að hafa leitt Japan til sigurs í Asíubikarnum.
Miura hefur einnig leikið fyrir félög á borð við Genoa og Sydney FC og er þekktur fyrir afar faglega nálgun. Hann leggur mikla áherslu á líkamsrækt, mataræði og endurheimt og hefur sagt að draumur sinn sé að spila áfram þar til líkaminn segir stopp, jafnvel langt fram yfir sjötugt.