
Tómas Hilmar Ragnarz, íslenskur athafnamaður, vann fyrr í mánuðinum mikilvægan sigur í máli sem Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi höfðaði gegn honum persónulega. Landsréttur vísaði málinu frá héraðsdómi, þar sem sendinefndin hafði ekki aðildarhæfi til að sækja á Tómas.
Sendinefndin krafðist þess að Tómas yrði gerður persónulega ábyrgur fyrir skuld félags sem hann hafði áður stýrt. Málið tengist rekstri Orange Procject ehf, sem Tómas var í forsvari fyrir, en fyrirtækið, sem sérhæfði sig í útleigu á skrifstofurými, fór illa út úr samkomutakmörkunum Covid-tímans og varð gjaldþrota. Sendinefndi gerði kröfu um endurgreiðslu húsaleigutryggingarinnar og lýsti kröfu í þrotabúið. Ekki fékkst greiðsla upp í þessa kröfu við skiptin á þrotabúinu og gerði sendinefndin einkakröfu á Tómas.
Héraðsdómur féllst á kröfu sendinefndar ESB en Landsréttur hefur nú ómerkt þann dóm og vísað málinu frá héraðsdómi. Landsréttur gerir þetta á grundvelli þess að sendinefndina hafi skort aðildarhæfi í málinu. Landsréttur benti við meðferð málsins á að ekki væri greint frá nöfnum eða öðrum persónuupplýsingum fyrirsvarsmanna sendinefndarinnar í gögnum málsins. Var því beint til lögmanns við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti að upplýsa um fyrirsvar og skipulag nefndarinnar sem málsaðila. Landsréttur taldi þær upplýsingar sem bornar voru fram um þetta ekki vera fullnægjandi og vísaði því málinu frá héraði á grundvelli skorts á aðildarhæfi.
Tómas Hilmar hefur því verið leystur undan kröfum sendinefndar ESB um að hann beri persónulega ábyrgð á endurgreiðslu húsaleigutryggingar fyrir hönd hins gjaldþrota félags.
„Þetta er gríðarlegur léttir. Það er þungbært þegar stór og öflug stofnun eins og Sendinefnd Evrópusambandsins reynir með þessum hætti að sækja að manni persónulega og þetta hefur haft veruleg áhrif á allan minn rekstur og kostað stórfé sem ég þarf að bera sjálfur að óþörfu,“ segir Tómas Hilmar Ragnarz og er afar sáttur við niðurstöðu Landsréttar.
Dóminn má lesa hér.