
Samkvæmt heimildum DV hefur lagningarfyrirtækið Auto Park ekki greitt laun fyrir nóvember til að minnsta kosti þriggja starfsmanna, er þar um að ræða tvo karlmenn og eina konu. Annar karlanna er enn við störf hjá fyrirtækinu, en hin tvö eru hætt.
Skipt hefur verið um eigendur að fyrirtækinu og eru nýju eigendurnir mæðgin, einn fyrri starfsmanna og móðir hans. Nýju eigendurnir hafa tjáð starfsfólki sem á inni ógreidd laun að það sé á ábyrgð fyrri eigenda að greiða launin.
DV greindi frá því þann 10. desember að starfsmaður að nafni Unnar Snær Guðrúnarson hefði ekki fengið greidd laun fyrir nóvember og ætti hvorki fyrir jólamat né jólagjöfum.
DV hefur ekki tekist að ná sambandi við eigendur Auto Park, hvorki fráfarandi né nýja eigendur. Við vinnslu fréttarinnar um Unnar hringdi blaðamaður í síma fyrirtækisins og ræddi við starfsmann á plani. Viðkomandi gaf ekki upplýsingar um eigendur eða stjórnendur og sagðist telja ólíklegt að forsvarsmenn fyrirtækisins vildu ræða við blaðamann.
Auto Park var í eigu þriggja bræðra og var kynnt á vefsíðu sem íslenskt fjölskyldufyrirtæki.
Heyrst hefur að nýir eigendur ætli að reka fyrirtækið á nýrri kennitölu og eldri eigendur ætli að keyra hina kennitöluna í þrot. Hvorugt er þó staðfest og fyrirtækið hefur ekki verið lýst gjaldþrota.
Hins vegar er kennitala fyrirtækisins orðin að kennitölu annars fyrirtækis. Samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins heitir það fyrirtæki Leggurinn ehf. og sérhæfir sig í bjórgerð og heildverslun með drykkjarvörur. Forsvarsmaður Leggjarins er skráður Ágúst Þór Ágústsson, en hann er einn þriggja bræðra sem áttu og ráku Auto Park þar til fyrir skemmstu.