
Manchester United er nú til í að skoða tilboð í Kobbie Mainoo, en það er breytt afstaða frá því fyrir skömmu. Sky Sports segir frá.
Félagið vill halda í þennan 20 ára gamla miðjumann og telur hann mikilvægan hluta af framtíðaráætlunum Ruben Amorim. Hins vegar hefur skortur á mínútum í úrvalsdeildinni breytt stöðunni.
Mainoo hefur ekki byrjað leik í deildinni á tímabilinu, þó hann hafi áður verið kominn í lykilhlutverk á Old Trafford.
United vilja ekki selja Mainoo, en eru ekki lengur alfarið á móti því að taka samtöl ef óvenjulega góð tilboð berast. Lán er talið ólíklegt.
Nokkur úrvalsdeildarfélög fylgjast með stöðunni, en aðeins fá þeirra myndu ráða við að kaupa Mainoo. Það er líklegt að Mainoo verði því áfram hjá United, nema ansi stórt tilboð berist.