

Bónus heldur áfram að láta gott af sér leiða og hefur á síðustu fimm árum veitt hjálpar- og góðgerðarfélögum um allt land styrki sem nema rúmlega 50 milljónum króna. Nú í desember einum saman námu styrkir Bónus rúmum 10 milljónum króna, sem dreifðust til fjölda aðila sem sinna mikilvægu hjálparstarfi.
Helstu styrkirnir fara til Hjálparstarfs kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnda og kirkjusókna víða um land, auk Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðis og Norðurhjálpar. Alls er um að ræða nokkur tug hjálpar- og góðgerðarfélaga, sem nýta framlögin til að styðja við einstaklinga og fjölskyldur sem þurfa á aðstoð að halda. Kemur þetta fram í tilkynningu.
„Árlega styrkir Bónus mörg góð málefni og við starfsfólk Bónus erum afar glöð að geta veitt stuðning til hinna ýmsu hjálpar- og góðgerðarfélaga sem koma framlögum áfram til sinna skjólstæðinga. Það er samfélagsleg skylda fyrirtækja, og okkar allra, að sýna náungakærleik. Vonandi hefur þetta framlag Bónus komið sér vel fyrir marga sem þurfa á því að halda, sérstaklega nú fyrir jólin,“ segir Ólafur Thors, markaðsstjóri Bónus.
Með reglulegum styrkjum leggur Bónus sitt af mörkum til að styðja við samfélagið og hjálpa þeim sem standa höllum fæti, ekki aðeins á hátíðum, heldur allt árið um kring.