
Lögregluaðgerð með aðstoð sérsveitar Lögreglustjóra stendur nú yfir við íbúðarhús á Selfossi.
DV barst ábending þar sem segir að lögregla og sérsveit sitji um mann á tilteknu heimilisfangi á Selfossi.
Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri embættis Ríkislögreglustjóra, staðfestir í samtali við DV að sérsveitin sé að aðstoða lögregluna á Suðurlandi en gat ekki tilgreint staðsetningu.
DV hafði samband við konu sem skráð er til heimilis á umræddu heimilisfangi. Hún neitaði því ekki að lögregluaðgerð stæði yfir á heimilinu, sagðist vera á leiðinni þangað, væri upptekin og gæti ekki rætt við blaðamann.
Ekki náðist samband við lögregluna á Suðurlandi við vinnslu fréttarinnar.
Vísir greinir frá því að einn hafi verið handtekinn í aðgerðinni og hefur það eftir Garðari Má Garðarssyni, aðalvarðsstjóra. Segir hann einn hafa verið handtekinn í heimahúsi á Selfossi. Ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um málið.