
Arne Slot, stjóri Liverpool, segir að fjaðrafokinu í kringum Mohamed Salah sé algjörlega lokið.
Eins og flestir vita baunaði Salah á Slot og stjórn Liverpool á dögunum eftir bekkjarsetu og var settur utan hóps í kjölfarið. Hann sneri þó aftur um síðustu helgi.
„Ég sagði það í síðustu viku að gjörðir hafa meira vægi en orð. Við höfum sagt skilið við þetta. Hann var í hópnum síðast og kom fyrstur inn á,“ sagði Slot á blaðamannafundi í dag.
Salah verður ekki með Liverpool næstu vikur þar sem hann er á leið í Afríkukeppnina með egypska landsliðinu.
„Hann fer nú í Afríkukeppnina og mun spila stóra leiki svo það er eðlilegast að einbeiting hans sé á þeim.“