

Íransk-ameríski uppistandarinn, leikarinn, framleiðandinn og leikstjórinn Max Amini hefur ferðast víða um Bandaríkin og Evrópu það sem af er ári með uppistand sitt og mun halda áfram á næsta ári.
Það var í Stokkhólmi í Svíþjóð þann 31. maí síðastliðinn sem íslensk kona var meðal áhorfenda og varð hún óvart hluti af atriði Amini. Atriðið sló í gegn og Guðríður Hilmarsdóttir hló manna hæst að gríninu sem beint var að henni.
„Ég hef fylgst með honum síðan í janúar og finnst hann alveg frábær. Ég sá að hann var að koma til Stokkhólms og ákvað að fara. Það fyndna var að áður en sýningin byrjaði, þá voru tveir Svíar sem töluðu við okkur og sögðu við okkur upp á grín að það væri fyndið ef hann myndi reyna að segja nafnið mitt, og það var annar af þessum strákum sem sagði við Amini að spyrja hvað ég heiti,“
segir Guðríður í samtali við DV.
„Sýningin í heild er frábær, hann er fljótur að hugsa og gera hlutina fyndna. Mér fannst þetta ekkert óþægilegt eða niðurlægjandi bara fyndið,“ segir Guðríður aðspurð um hvort henni hafi ekki þótt það óþægilegt eða niðurlægjandi að láta gera svona grín að sér.
„Eins og við vitum þá er íslenskan frekar erfið og að segja til nafns, ég hef búið hér i Svíþjóð samanlagt í 40 ár og það getur enginn sagt Guðríður. Ef maður tekur þetta nærri sér þá á maður ekki að fara á uppistand. Mig minnir nú að við hlógum mjög mikið þegar Eyjafjallajökull var að gjósa og heimurinn var að reyna að bera nafnið rétt fram og Íslendingar hlógu.“
Guðríður mælir svo sannarlega með að fara á uppistand Amini ef kostur gefst.
„Ef maður fær tækifæri þá á maður endilega að fara að sjá hann. Hann er persi að uppruna en alinn upp og býr í Bandaríkjunum. Það má finna mörg myndbönd með honum á netinu sem hægt er að hlægja að. Hann er í heimsreisu og ferðast víða, ég veit að hann er með sýningu á persíu og ensku, það var 95 prósent af fólki frá einmitt Iran minnir mig. Hann þyrfti að koma til Íslands, hann fengi áfall að segja öll nöfn. Það er aldrei að vita eftir þetta kemur hann kannski til Íslands og þá mun ég segja við fólk endilega að fara.“
Guðríður hefur búið í Svíþjóð í 40 ár í heildina. „Ég flutti fyrst sem barn, flutti aftur heim Íslands, flutti aftur út til Svíþjóðar sem aupair, hitti fyrrverandi manninn, gifti mig og eignaðist þrjú börn. Síðan flutti ég aftur til Íslands í þrjú ár og síðan til Gautaborgar. Ég hef búið í Stokkhólmi núna í þrjú og hálft ár og börnin mín búa hér.“
Guðríður er kölluð Gurrý sem hún segir Svíana geta sagt, annað mál er með Amini eins og sjá má á myndbandinu.
„Já þeir geta sagt Gurrý það einfaldar málið sérstaklega í vinnunni,“ segir Gurrý, sem starfar sem framleiðslustjóri í fangelsi.
Gurrý tók upp nokkur myndbönd á sýningunni og hér er eitt þeirra: